Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 17:57:10 (4469)

2002-02-12 17:57:10# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Miðað við þessa síðari ræðu þingmannsins er sú tillaga sem hér er mælt fyrir fullkomlega óþörf vegna þess að þetta er allt í fullum gangi sem við erum að gagnrýna stjórnvöld fyrir.

Herra forseti. Ég ætla að draga það til baka að ríkisstjórnin hafi ekkert gert. Hún hefur gert tvennt. Hún hefur sett fram pólitíska yfirlýsingu sem hefur vakið athygli út um lönd og gerir það að verkum að hingað koma í stríðum straumum erlendir þáttagerðarmenn og ýmsir aðilar, m.a. þingmennirnir frá Evrópusambandinu sem ég hitti í sumar. Og hún hefur sótt um styrki og fengið þá. Það þýðir ekkert fyrir þingmann að bregðast við með þessum hætti þegar við bendum á að tillaga hans, sem við styðjum af því við viljum stefnu í málinu, af því við viljum að það verði skoðað hvernig unnt er að virkja til þess að vetnisvæða --- tillagan fram komin með þessum hætti frá tveimur stjórnarliðum dregur athyglina að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Þingmaðurinn verður að gera sér grein fyrir því að hann er að flytja tillögu um að móta stefnu af því stefnan er ekki til. Þetta eru staðreyndir málsins sem við erum að benda á.

Herra forseti. Bara eitt atriði. Komið hefur fram hjá þeim sem vinna við þessi mál að unnt er að nota afgas frá stóriðju á Íslandi til að framleiða metanól. Hefur ríkisstjórnin stigið eitt skref í því að semja við stóriðjufyrirtæki, t.d. þessi nýju sem nú eru að koma til landsins, um að ef þau komi og fái raforku þá verði þau veskú að láta afgas af hendi til þess að þar fáum við gífurlega auðlind? Nei. Það er ekki verið að gera neitt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það eru aðrir að framkvæma og þingmaðurinn vill að ríkisstjórnin setji fram stefnu af því að stefnan er ekki til.