Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 18:01:31 (4471)

2002-02-12 18:01:31# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að metanólnotkun hefur þann kost að þá er hægt að nota kerfið sem er til staðar í landinu í dag og dæla metanóli á bíla sem verða með slíka rafala, og þann ókost að það er ekki algjörlega útblástursfrítt. Á móti kemur að erfitt er að finna leið til að vetnisvæða bifreiðarnar eða aðrar vélar svo sem í skipaiðnaði með hreinu útblástursfríu vetni vegna þess að geymslumöguleikann vantar. Þetta vitum við bæði.

Herra forseti. Það sem þingmaðurinn er sjálfur að draga fram styður nákvæmlega þau atriði sem ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir erum að gagnrýna á sama tíma og við tökum undir með þingmanninum. Hann á sannarlega að gleðjast yfir því. Hér hafa tveir þingmenn talað og stutt hann í því sem hann er að setja fram. Við bendum á að um leið dregur hann athygli að því að það er ekki stefna hér. Svo segir hann í síðari ræðu sinni að íslenska ríkisstjórnin bjóði landið fram sem tilraunavettvang fyrir fjárfesta.

Hann er að segja það sama og við. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert vetnisvæðinguna að sinni. Þau hafa verið með pólitískar yfirlýsingar, þau hafa sagt að það væri svo flott ef Ísland vetnisvæddist og yrði fyrsta hreina orkuhagkerfið í heiminum. En þeir ætla ekki að setja krónu í það --- jú, eina millj. frá Háskóla Íslands í nýorkuverkefnið, þ.e. fyrirtækið. Peningar eru ekki settir í verkefnið, ekkert gert sem máli skiptir. Öðrum er leyft að þróa eitthvað og verið er að bjóða hingað heim.

Það er ekki ástæða fyrir stjórnmálamenn á Capitol Hill til að horfa hingað og segja: Framsýn stjórnvöld, þarna á að vetnisvæða heilt land.