2002-02-12 18:14:22# 127. lþ. 75.11 fundur 488. mál: #A flutningur verkefna frá stjórnsýslustofnunum til sýslumannsembætta á landsbyggðinni# þál., Flm. GunnS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Gísli S. Einarsson, Kristján L. Möller og Svanfríður Jónasdóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvaða verkefni er unnt að flytja frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni. Nefndin undirbúi einnig flutning verkefna og stefni þannig að því að gera embættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði.

[18:15]

Allmiklar umræður hafa farið fram um byggðamál nú síðustu daga. Byggðamál hafa verið með stærstu verkefnum ríkisstjórna á undanförnum áratugum. Hins vegar hefur margt verið sagt um þau málefni en á það bent að minna hafi verið gert. Það væri betra ef verkin opinberuðust í réttu hlutfalli við öll fögru fyrirheitin og orðin sem fallið hafa um málefni byggðanna á undanförnum áratugum. Þessi tillaga mælir fyrir um að kanna til hlítar og undirbúa hvort ekki sé raunhæfur grundvöllur fyrir því að stórefla embætti sýslumanna á landsbyggðinni. Það hefur vakað fyrir að ríkisstjórnir hafi viljað fækka sýslumannsembættunum, leggja nokkur sýslumannsembætti niður, og það hefur verið gert undanfarin ár. Það er ekki aðferð til þess að styrkja byggðina. Þessi tillaga gæti orðið mótvægi gegn slíkum hugmyndum með því að styrkja og efla sýslumannsembættin og flytja til þeirra fleiri verkefni.

Eins og kunnugt er greinast verkefni sýslumanna annars vegar í lögreglustjórn, ásamt öðrum störfum við að halda uppi lögum og rétti, og hins vegar almenn umboðsstörf. Þannig hafa sýslumenn með höndum innheimtu á tekjum ríkissjóðs, að því leyti sem hún er ekki falin sameiginlegum gjaldheimtum. Sýslumenn fara og með tollstjórn hver í sínu umdæmi utan Reykjavíkur, umboð fyrir Tryggingastofnun ríkisins og umsjón sjúkratrygginga.

Á sama hátt mælir ekkert gegn því að sýslumenn geti haft umboð fyrir aðrar ríkisstofnanir eftir því sem nauðsyn krefur til að koma á betri þjónustu og nánari samskiptum en verið hefur við fólkið úti á landi. Þetta er einföld leið til þess að styrkja byggð, efla búsetu og bæta lífskjör á landsbyggðina. Hér opnast miklir möguleikar, einnig til að flytja ákveðin stjórnsýsluverkefni af höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina og bæta þar með þjónustuna við fólkið heima í héraði.

Hér koma margvísleg verkefni til greina. Verkefni hinna almennu umboðsstofnana sýslumanna yrðu ekki síst fólgin í að miðla upplýsingum, veita fyrirgreiðslu, hafa á hendi afgreiðslu tiltekinna málaflokka og sinna svæðisbundnum viðfangsefnum fyrir einstakar ríkisstofnanir. Þá koma til greina leyfisveitingar ýmiss konar, úrskurðarvald í vissum málum, margháttuð eftirlitsstörf og annað sem varðar eiginlega stjórnsýslu og á betur heima hjá svæðisbundnu umboðsvaldi í héraði en miðstýringu Stjórnarráðsins. Þetta mál fjallar því um leið til að efla valddreifingu. Þetta mál fjallar einnig um þjónustudreifingu, að flytja vald og þjónustu frá stjórnsýslustofnunum á höfuðborgarsvæðinu, eins og við á, heim í hérað.

Við getum hugsað okkur að stór hluti af víðtækri eftirlitsstarfsemi með atvinnulífinu gæti vistast hjá embættum sýslumanna, hjá umboðsdeildum embætta sýslumanna. Eins og kunnugt er fer fram mjög víðtæk eftirlitsstarfsemi á vegum hins opinbera sem nær eðlilega til atvinnulífsins um allt land. Það er kunnara en frá þurfi að segja að opinberir eftirlitsmenn eru víðförlir um landsbyggðina og hafa eftirlit með margs háttar starfsemi. Það má kanna hvort ekki sé grundvöllur til að þessa starfsemi megi að stórum hluta vista hjá sýslumannsembættunum og spara þar með mikinn kostnaði í leiðinni. Þessi tillaga er því ekki einvörðungu flutt hér til að auka valddreifingu heldur líka í sparnaðarskyni. Það bendir allt til þess að ef þessi tilhögun yrði tekin upp í ríkari mæli mundi hún spara útgjöld fyrir ríkissjóð.

Það er brýnt að gripið verði til aðgerða í byggðamálum. Það er búið að tala, lofa og gefa fyrirheitin. Fólkið á landsbyggðinni bíður eftir því að fyrirheitin breytist í verk, að verkin verði látin tala. Þessi tillaga sem ég mæli hér fyrir er einmitt grundvöllur til að láta verkin tala. Þetta er bein tillaga um aðgerðir, um að stíga einfaldlega stutt skref sem þó gæti orðið til að lyfta grettistaki og haft veruleg áhrif hvort tveggja í senn, eflt atvinnulíf, bætt þjónustu og ekki síst aukið valddreifingu.

Herra forseti. Þessi tillaga var fyrst flutt á 117. löggjafarþingi. Það eru sjö ár síðan hún var fyrst flutt. Heita má að á þessum sjö árum hafi byggðaþróunin verið hin sama og verið hefur um nokkurra áratuga skeið. Ef nokkuð er hafa búferlaflutningarnir aukist á sl. sjö árum, í mesta góðæri Íslandssögunnar. Það er brýn þörf á að gripið verði til aðgerða og í þeirri von er þessi tillaga flutt.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. allshn.