2002-02-12 18:24:40# 127. lþ. 75.11 fundur 488. mál: #A flutningur verkefna frá stjórnsýslustofnunum til sýslumannsembætta á landsbyggðinni# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, fyrir flutning þessarar tillögu og hvernig hann mælti fyrir henni. Hér er óskað eftir því að ríkisstjórnin skipi nefnd sem kanni hvaða verkefni sé hægt að flytja frá stjórnsýslunni að sunnan til sýslumannsembættanna, sem verði þá stjórnsýslumiðstöðvar í dreifbýlinu á hverjum stað.

Ég hef alla tíð talið að farsælt væri að fara slíka leið við umræður um þessi mál sem oft hafa tekið svo, hvað á maður að segja, skrýtna snúninga, þ.e. þegar rætt er um tilflutning verkefna frá þéttbýli til dreifbýlis. Í þessum sal höfum við margsinnis farið í gegnum umræðuna um að flytja stofnanir. Við þekkjum allar hliðar þeirrar viðkvæmu umræðu. Það hvarflar ekki að mér að fjalla um þau mál í umræðum um þessa tillögu. Í þessari tillögu eru engir viðkvæmir þættir. Þessi tillaga er eðlileg og það að flytja verkefni frá einni stofnun til annarrar er góð lausn.

Á síðustu árum hafa orðið til ný verkefni og ný þjónusta sem mikilvægt er að allir hafi aðgang að. Þessi verkefni eru kannski eingöngu unnin hér fyrir sunnan og þjónustan eingöngu veitt á þessu svæði. Það er með ólíkindum hve ríkisvaldið hefur verið svifaseint og hugmyndasnautt varðandi það að flytja eða réttara sagt, staðsetja ný verkefni annars staðar en hér í þéttbýlinu. Það er ótrúlega svifaseint og hugmyndasnautt. Segja má að viðbrögð ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar í þessum málum undanfarin ár séu nákvæmlega jafnlítil og í því máli sem ég var að ræða hér við hv. þm. Hjálmar Árnason fyrir stundu. Hann taldi að mikið hefði verið að gert af hálfu ríkisstjórnarinnar með því að ríkisstjórnin gæfi yfirlýsingu og hefði áform. Minna máli skipti hvort þeim áformum var fylgt eftir með fjármögnun eða aðgerðum. Við höfum á liðnum árum búið við yfirlýsingar og áform, aftur og aftur, en framkvæmdin situr eftir.

Í gær var rætt á Alþingi um tveggja ára gamla skýrslu um áform í byggðamálum. Umræðan varð ekki mjög löng vegna þess að skýrslan sem var til umræðu var úrelt, ekki bara vegna þess að hún átti að vera fyrir árin 2000 og 2001 eða hvort það var skýrsla sem átti að ræðast 2000 fyrir árið 2001 og 2002, hvort tveggja er jafnarfavitlaust. Seinagangurinn hefði átt að nægja til að Alþingi hefði lagt skýrsluna til hliðar en það var ekki eingöngu þess vegna sem hún var úrelt heldur vegna þess að önnur nýrri skýrsla, með nýjum áætlunum, var komin á vef byggðamálaráðherra. Það er sorgleg staðreynd að þrátt fyrir skýrslur og ýmis góð áform hefur ekki verið unnt að snúa við íbúaþróun á landsbyggðinni. Flutningurinn suður hefur aukist og úrræðum til að þjóna fólki í heimabyggð hefur fækkað.

Ljóst er að miklar þjóðháttabreytingar hafa orðið, ekki aðeins í atvinnuháttum --- og ég undirstrika að ég dreg á engan hátt úr þeim mikla vanda sem orðið hefur vegna breytinga á atvinnuháttum --- heldur beinlínis aðrar samfélagsbreytingar. Fjölskyldur og einstaklingar hvar sem er á landinu gera aðrar kröfur í dag en fyrir 30 eða 20 árum. Viðhorf manna hafa breyst á síðastliðnum 10 árum. Fólk vill hafa aðgang að sömu lífsgæðum hvar sem það býr á landinu. Fólk vill hafa aðgang að sérfræðiþjónustu og allri þeirri þjónustu sem við í þéttbýlinu lítum á sem sjálfsagðan hlut og getum gengið að í næsta húsi en sem fólk sem býr í dreifbýli á yfirleitt ekki aðgang að nema sækja hana suður.

Þessir þættir, breytingarnar og kröfurnar, hafa gert það að verkum að fólk sem gjarnan vill búa í húsinu sínu áfram, í byggðinni sinni og umhverfi sínu, kýs samt að flytja, oft vegna þess að eitthvað bjátar á, stundum eitthvað stórt sem erfitt er að sinna heima fyrir. Oft eru það þó smávægileg atriði ef við settum það undir mælistiku okkar. Þau verða risastór í umhverfi þess fólks sem þarf að sjá á eftir börnunum sínum vegna menntunar, þarf að fara á milli með börn sín vegna veikinda eða fylgja á eftir öldruðum foreldrum. Fjölskyldan flyst því jafnvel öll vegna vandamála sem ekki er sinnt þar sem hún er búsett.

Þess vegna, herra forseti, er mikilvægt að þjónusta sem fólk þarf að sækja suður í dag, sem unnt væri að veita á heimaslóð, verði veitt í héraði. Þess vegna er þessi tillaga um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum, eða eins og hér segir, ekki eingöngu bara frá stofnunum heldur líka frá ráðuneytum. Lagt er til að þau verkefni sem unnt er að veita þar verði flutt til umboðsvaldsins í héraði og þar með mundi þjónustan heima fyrir batna. Það skiptir máli fyrir fólk á landsbyggðinni.

Þess vegna, herra forseti, styð ég þessa tillögu eindregið og óska þess að hún fái brautargengi í hv. allshn. Ég hefði viljað óska þess að við hefðum rætt hana fyrir fullum sal við þá sem hafa svo oft á liðnum árum komið í ræðustól Alþingis til að lýsa áformum og áætlunum sem ekkert hefur orðið úr.

Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, 1. flm. þessarar tillögu, lýsti því að sjö ár væru síðan hann flutti tillöguna fyrst og hún hefði verið flutt mörgum sinnum án þess að nokkuð gerðist. Ég ætla að minna hv. þm. á, ekki síst vegna þess hver Gunnlaugur Stefánsson er, að það verða kosningar að ári og hver veit nema í kjölfar sjö vondra ára komi sjö góð ár.