2002-02-12 18:40:49# 127. lþ. 75.11 fundur 488. mál: #A flutningur verkefna frá stjórnsýslustofnunum til sýslumannsembætta á landsbyggðinni# þál., Flm. GunnS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir stuðning þeirra við tillöguna sem hér er til umræðu. Ég tek undir orð þeirra. Það er mjög mikilvægt að gripið verði til aðgerða í byggðamálum sem skapi raunhæfar væntingar, að landsbyggðarfólk skynji að stjórnvöld ætli að treysta byggðina í landinu með aðgerðum sínum. Hér er ekki verið að tala um byggðastefnu á grundvelli ölmusu, hér er einvörðungu verið að tala um byggðastefnu á grundvelli jafnréttis.

Kjarni málsins er að fólkið í landinu, hvar sem það býr, sitji við sama borð. Þetta er því ekki einvörðungu varnarbarátta byggðanna. Þetta er jafnréttisbarátta. Þessi jafnréttisbarátta gengur m.a. út á að hið opinbera, eins og frekast er unnt, veiti þjónustu á jafnréttisgrundvelli heima í héraði. Til lengri tíma litið er það ekki einvörðungu spurning um réttlæti heldur líka spurning um sparnað í ríkisrekstrinum og mannréttindi.

Að sitja við sama borð, í því felst að verkefni, opinber verkefni sem unnin eru í stjórnsýslunni og ráðuneytunum hér á höfuðborgarsvæðinu en eiga í raun að vistast heima í héraði, verði flutt þangað. Mikilvægur þáttur í slíkum flutningi eru einmitt sýslumannsembættin, umboðsskrifstofur stjórnsýslukerfisins. Ég held að engum detti í hug að hætta við þá góðu skipan að sýslumenn fari með umboð almannatrygginga í landinu, sjái um skattheimtuna og ýmiss konar fleiri verkefni sem sýslumenn hafa haft með höndum með ágætum árangri í gegnum tíðina. Enginn vill breyta þeirri skipan. En spurningin er þessi: Getum við ekki flutt til þeirra fleiri verkefni og jafnvel stærri og eflt þannig sýslumannsembættin og umboðsdeildir þeirra?

Það er hárrétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að það er erfitt fyrir margar fjölskyldur að neyðast til að flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið vegna ytri aðstæðna. Um þetta þekkjum við mjög mörg dæmi, því miður. Við gerum okkur grein fyrir því að fjölskyldur eru að yfirgefa heimili sitt, eigið húsnæði, þar sem falinn er sjálfur ævisparnaðurinn. Stundum er ekki hægt að selja þessi hús og ef það er hægt þá fyrir mjög lágt verð sem á engan hátt stendur undir kostnaðarverði eignanna. Þessi fjölskylda þarf síðan að takast á við að byrja upp á nýtt við að koma undir sig fótunum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við skulum átta okkur á því að víða á landsbyggðinni er atvinnulífið fábreytt. Þar eru víða láglaunasvæði og því ekki efnað fólk sem er að flytja á höfuðborgarsvæðið. Sérstaklega það fólk sem neyðist til að flytja vegna aðstæðna og að byrja með jafnvel tvær hendur tómar upp á nýtt, á miðjum aldri og eftir miðjan aldur. Það er hlutskipti sem ég held að margur geri sér ekki grein fyrir að fjölmargir þurfa að reyna.

Ég veit að þetta fólk vorkennir sér ekki. Það er að takast á við nýjar aðstæður en þetta er samt spurning um jafnrétti, að fólk fái að sitja við sama borð. Þetta er brýnn vandi sem blasir við og þess vegna þarf að taka hraustlega á í byggðamálunum og reyna að feta þær leiðir sem geta falið í sér aðgerðir sem skapa væntingar, byggðar á trausti.