Varnarsamningurinn við Bandaríkin

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:42:04 (4483)

2002-02-13 13:42:04# 127. lþ. 77.1 fundur 469. mál: #A varnarsamningurinn við Bandaríkin# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Það liggur sem sagt fyrir að viðræður hafa ekki hafist, og bókunin rann náttúrlega út fyrir 10 mánuðum eins og fram kom í máli mínu. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvaða áhrif það hafi í raun á stöðu samskipta þessara tveggja þjóða og hvort hæstv. utanrrh. telji ekki brýnt að gengið verði til þessara viðræðna sem fyrst. Ef ekki ber sérlega mikið í milli ríkisstjórnanna tveggja hygg ég að samningur um útfærsluna á bókuninni ætti ekki að taka mjög langan tíma.

Einnig þætti mér vænt um að fá að heyra frá hæstv. utanrrh. hvenær hann telji að viðræður geti hafist eða muni hefjast.