Stefnumótun í öryggis- og varnarmálum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:52:16 (4488)

2002-02-13 13:52:16# 127. lþ. 77.2 fundur 470. mál: #A stefnumótun í öryggis- og varnarmálum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin en þau ollu mér vonbrigðum. Ég hefði haldið í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið á liðnum mánuðum og þeirra yfirlýsinga sem fallið hafa í þessum sal um gjörbreytta heimsmynd og algjörlega nýja stöðu í alþjóðamálunum í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. væri full ástæða til að beita sér fyrir þverpólitískri vinnu um þessi mál. Ef ekki nú, þá hvenær, herra forseti?

Þetta er mikið og vandasamt verkefni og ég held að mjög mikilvægt sé að að því verkefni komi allir stjórnmálaflokkar á Alþingi Íslendinga. Það er þannig vaxið og varðar okkur það mikið. Með fullri virðingu fyrir embættismönnum utanrrn. og starfi þeirra í aðskiljanlegum starfshópum er verkefnið pólitískt, mörkun öryggis- og varnarstefnu til framtíðar er pólitískt verkefni og þótt um hana ríki töluverð samstaða í samfélaginu, sem sérstaklega kom fram í viðbrögðum við 11. september, er það ekki svo að hana þurfi ekki að vinna á pólitískum vettvangi.

Vegna orða hv. þm. Kristjáns Pálssonar er okkur alveg ljóst að það er til stefnumörkun og það kom skýrt fram í fyrirspurn minni. Ég er ekki á neinni fjallabaksleið inn í Evrópusambandið, herra forseti. Ég er að reyna að stuðla að málefnalegri og upplýstri umræðu um öryggismál í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa, og það er fjarri mér að fara hér upp með eitthvað sem gæti kallast ,,falin dagskrá`` á íslensku. Ég segi það sem ég meina, herra forseti.