Stefnumótun í öryggis- og varnarmálum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:54:24 (4489)

2002-02-13 13:54:24# 127. lþ. 77.2 fundur 470. mál: #A stefnumótun í öryggis- og varnarmálum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að utanrrn. er pólitískur vettvangur. Utanrrn. vinnur í umboði utanrrh. Öll önnur ráðuneyti eru að sjálfsögðu pólitískur vettvangur vegna þess að þau vinna í umboði viðkomandi ráðherra og allt sem þar gerist er á ábyrgð hans.

Ég tek hins vegar undir það að ef deilur væru miklar og skoðanir skiptar um utanríkisstefnuna væri ástæða til að koma slíku starfi á. Ég hef orðið þess áskynja að einmitt eftir 11. september hafi skapast meiri samstaða um þessar grundvallarstoðir íslenskrar utanríkisstefnu, þ.e. aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Oft og tíðum hafa verið mjög deildar meiningar, bæði um aðildina og samninginn. Vegna þess að hér er um slík grundvallaratriði að ræða tel ég nauðsynlegt að treysta utanríkisstefnu okkar á þessum mikilvæga grunni og ég hef skynjað Samfylkinguna þannig upp á síðkastið að hún vilji byggja á honum. Hér áður fyrr mátti heyra að það væri stefna Samfylkingarinnar að við segðum okkur úr Atlantshafsbandalaginu í framtíðinni, orðað svo að við ættum ekki aðild að hernaðarbandalagi til frambúðar. Ég hef skynjað breytingu á þessu og mikla samstöðu um að byggja á þessum grundvelli, og það er vel.