Réttarstaða Byrgisins í Rockville á Miðnesheiði

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 13:59:56 (4491)

2002-02-13 13:59:56# 127. lþ. 77.3 fundur 472. mál: #A réttarstaða Byrgisins í Rockville á Miðnesheiði# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mun fyrst og fremst leitast við að svara þeim spurningum sem til mín er beint á því þingskjali sem hér er til umræðu og hv. þm. hefur lagt fram.

1. Rockville er varnarsvæði og er sem slíkt á forræði varnarliðsins. Rockville er ekki lengur í notkun sem ratsjárstöð og varnarliðið heimilaði íslenska ríkinu afnot af svæðinu varnarliðinu að skaðlausu í mars 1999. Utanrrn. heimilaði Byrginu afnot af mannvirkinu í Rockville með samningi, dags. 22. mars 1999, og markar hann réttarstöðu Byrgisins í Rockville.

Samkvæmt samningnum er öll starfsemi Byrgisins í Rockville á kostnað og ábyrgð Byrgisins sjálfs en háð samþykki utanrrn. Samningurinn er runninn út og hefur ekki verið formlega endurnýjaður. Vinnuhópur þriggja ráðuneyta vinnur hins vegar að tillögum varðandi framtíð Rockville og veru Byrgisins og stefnt er að því að hann ljúki störfum á næstu vikum. Byrginu var tilkynnt að þar til vinnuhópurinn hefði lokið störfum mundu engar ákvarðanir verða teknar um endurnýjun eða framlengingu samningsins frá 22. mars 1999 en að utanrrn. liti svo á að efnislega væri samningurinn í gildi þar til annað yrði tilkynnt.

2. Engin ákvörðun hefur verið tekin um áframhaldandi veru Byrgisins í Rockville eftir að varnarliðið hefur afhent íslenska ríkinu landið. Varnarliðið áætlar að skila landinu í árslok 2002 og eftir það gilda sömu lög og reglur um svæðið og önnur samsvarandi landsvæði á Íslandi.

3. Byrgið ber alfarið ábyrgð á öllum skuldbindingum sem það gengst undir vegna veru þess í Rockville, bæði á grundvelli almennra laga og Rockville-samningsins við utanrrn.

4. Í haust fór fram úttekt á starfsemi og rekstri Byrgisins og í tengslum við hana var rætt við forsvarsmenn Sandgerðisbæjar um afstöðu þeirra til Byrgisins og veru þess í Rockville. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um framtíð Rockville og þar af leiðandi hafa engar formlegar viðræður farið fram við Sandgerðisbæ um áframhaldandi veru Byrgisins þar.

Eins og hv. þm. kom inn á hefur verið verulegt gagn að þessari starfsemi. Þar hafa margir dvalið og haft mikið gagn af. Það er líka ljóst að kostnaður vegna vistunar þessara aðila hefur verið minni en víðast annars staðar. Ég geri mér hins vegar ljóst að þessi starfsemi á í erfiðleikum og það hefur verið til umfjöllunar. Í sjálfu sér er það ekki málefni utanrrn. sem slíks en utanrrn. ákvað á sínum tíma að heimila afnot af þessum mannvirkjum og gekkst fyrir því að það yrði heimilað vegna þess málefnis sem í hlut á. Það má vel vera að kostnaður hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir en það er rétt að geta þess að stuðningur við þessa starfsemi hefur líka verið allnokkur en upphaflega var gert ráð fyrir því að viðkomandi starfsemi þyrfti ekki á stuðningi frá hinu opinbera að halda. Ég held að það megi augljóst vera að það sé nánast útilokað að reka slíka starfsemi án verulegrar opinberrar fyrirgreiðslu og það er sjálfsagt að standa fyrir henni, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða að starfsemin gengur vel og kostnaður er hóflegur, eins og fram hefur komið.