Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:13:15 (4497)

2002-02-13 14:13:15# 127. lþ. 77.4 fundur 278. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:13]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að ég fékk um mánaðamótin maí/júní á síðasta ári lokaskýrslu frá starfshópi sem fjallaði um þetta mál. Hann komst að þeirri niðurstöðu að best væri að nýta héraðsskólahúsið á Laugarvatni í tengslum við íþróttamiðstöð sem yrði komið á fót. Eftir að þessi tillaga lá fyrir beindi ég því til íþróttanefndar ríkisins, sem er menntmrh. til ráðgjafar um íþróttamálefni, að hún færi yfir þessa skýrslu. Nefndin gerði það á sl. ári og lagði fram umsögn sína.

Nefndin telur þær hugmyndir sem settar eru fram í lokaskýrslu starfshópsins mjög jákvæðar með hliðsjón af eflingu íþrótta í landinu og nauðsynlegum endurbótum á sögufrægum byggingum eins og hinu glæsilega héraðsskólahúsi sem hannað var af Guðjóni Samúelssyni, þáv. húsameistara ríkisins, eins og það er orðað. Síðan er þar lagt til að farið verði ofan í tillögurnar. Eins og fram kom hjá hv. þm. taldi nefndin að það mundi kosta um 325 millj. kr. að vinna að þessu verkefni en íþróttanefnd ríkisins telur að þarna sé kannski um tvískiptan kostnað að ræða. Sumt falli beint að þessu verkefni, annað sé annars eðlis. Tillögur nefndarinnar ganga út á að ráðist verði í framkvæmdir sem að hennar mati muni kosta um 250 millj. kr.

Þetta starf var unnið á síðasta ári. Menn fóru yfir þetta og skoðuðu það. Það er ljóst að það er mikil samstaða um málið. Ég ákvað síðan í framhaldinu að fela sérstökum hópi undir formennsku Erlings Jóhannssonar sem er skorarformaður og skorarstjóri íþróttaskorar Kennaraháskóla Íslands í samvinnu við fulltrúa Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, Kennaraháskólans og menntmrn. að vinna frekar úr þessu og gera tillögur um forgangsröðun framkvæmda, rekstrarfyrirkomulag íþróttamiðstöðvarinnar og tengsl hennar við aðra aðila. Það eru uppi hugmyndir um hvernig þessu yrði best háttað þegar menn ganga til verksins en komið hefur fram, eins og hv. þm. nefndi, að það er víðtæk samstaða um að fara í þetta með þessum hætti. Nú er sem sagt beðið eftir því að að þessi hópur taki til starfa undir formennsku Erlings Jóhannssonar og þá verði málinu ýtt áfram, forgangsverkefni skilgreind og áfram staðið að því að ná þessu máli fram.