Starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:22:06 (4502)

2002-02-13 14:22:06# 127. lþ. 77.5 fundur 365. mál: #A starfsemi öldungadeilda framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Árið 1972 tók öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð til starfa. Hún varð upphaf að öflugu starfi öldungadeilda við nokkra framhaldsskóla á landinu. Við það tækifæri sagði þáverandi rektor MH, Guðmundur Arnlaugsson, að hann vildi að inngangan í námið væri víð en útgangan þröng, þ.e. að sem flestir fengju að reyna sig við þetta nám en um leið að standast þær kröfur sem gerðar væru til nemenda dagskólans, enda var það á þeim forsendum sem skólarnir ráku öldungadeildirnar og jákvæð hvatning varð til þess að aðsóknin að náminu var miklu meiri en nokkurn hafði órað fyrir. Þróunin varð sú að ekki komu allir í skólann til að ljúka prófum en engu að síður til að auka við þekkingu sína á ýmsum sviðum.

Fyrir nokkrum árum síðan ákvað hæstv. menntmrh. að greiða framhaldsskólunum ekki fyrir þann fjölda nemenda sem innrita sig í skóla heldur þann fjölda sem fer í próf. Þessi sama regla virðist gilda gagnvart námi í öldungadeildum auk þess sem framlög til þessarar kennslu hafa verið skert undanfarin ár, a.m.k. ef horft er til þeirra framlaga sem Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur fengið.

Ákveðinn fjöldi nemenda öldungadeilda innritar sig ekki í nám með það að markmiði að ljúka prófum. Auk þess er hér um fullorðið fólk að ræða, oft fjölskyldufólk, þar sem aðstæður á námstíma geta breyst skyndilega þannig að ekki er hægt að ljúka prófum. Þessar ástæður ásamt naumum fjárframlögum hafa gert það að verkum að nokkrir skólar hafa hætt að bjóða upp á nám í öldungadeildum, aðrir dregið saman eða íhuga að hætta starfsemi að óbreyttu.

Heimilt er samkvæmt reglugerð að innheimta 1/3 kennslukostnaðar af nemendum. Þar er þó ekki innifalin t.d. stjórnun, fagstjórnun eða skrifstofuhald. Starfsemi öldungadeildanna, sem er sniðinn þröngur stakkur, er því frekar þungur baggi á framhaldsskólunum ef ekki koma til auknar fjárveitingar frá ríkisvaldinu. Starfsemi öldungadeilda hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og er afar mikilvæg, ekki síst í þjóðfélagi þar sem kröfur um menntun og sérþekkingu eru sem betur fer að aukast fyrir utan það verðmæti sem felst í auknum möguleikum hvers einstaklings til að afla sér sérþekkingar án þess að lokatakmarkið sé að ljúka prófum. Starfsemi öldungadeildanna er því afar mikilvæg og erfitt er að samþykkja neitt sem dregur úr möguleikum framhaldsskólanna til þess að reka þessa starfsemi. Ég hef því, virðulegi forseti, leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. á þskj. 536 til hæstv. menntmrh.:

1. Gilda reglur um greiðslur á hvern nemanda framhaldsskóla um rekstur öldungadeilda, þ.e. að aðeins er greitt fyrir þá nemendur sem þreyta próf?

2. Hversu hátt hlutfall innritaðra nemenda í öldungadeild fer í próf og hversu hátt hlutfall allra nemenda í framhaldsskólum?

3. Hverjum er ætlað að bera kostnaðinn af þeim nemendum sem þreyta ekki próf? Og hver er kostnaður vegna þeirra á síðasta ári og áætlaður kostnaður á þessu ári, sundurgreint eftir skólum?

4. Er það ætlun ráðherra að beita sér fyrir því að herða reglur um innritun nemenda í öldungadeild í samræmi við áætlaðar fjárveitingar til þessarar kennslu á árinu 2002?