Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:36:29 (4508)

2002-02-13 14:36:29# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Málefni Ríkisútvarpsins eru landsmönnum hugleikin, ekki síður þeim er í dreifbýli búa en hinum sem búa í þéttbýli. Ríkisútvarpið hefur byggt upp myndarleg svæðisútvörp á Vestfjörðum, Vesturlandi og Austurlandi, og það með miklum ágætum. Samt má alltaf gera betur. Hins vegar hafa ekki verið byggð upp svæðisútvörp á Vesturlandi og Suðurlandi og þess vegna eru þau landsvæði afskekkt hvað þessa þjónustu Ríkisútvarpsins varðar.

Að vísu hefur Ríkisútvarpið gert samning við Útvarp Suðurlands hvað þetta varðar þótt sú þjónusta sé ekki sambærileg við önnur svæðisútvörp landshlutasamtakanna þar sem m.a. Útvarp Suðurlands er fjárvana fyrirtæki, til þess að gera illa tækjum búið og sendingar þess ná alls ekki um allt Suðurland. Það fyrirtæki er líka byggt upp af áhugafólki sem stendur sig vel, eftir því sem hægt er, en það eru verulegar takmarkanir á starfseminni.

Nú hefur verið ákveðið að flytja starfsstöð eða stjórnstöð Rásar 2 frá Reykjavík til Akureyrar. Í framhaldi af þeim flutningum er ekki úr vegi að spyrja hæstv. menntmrh.:

1. Hver eru í raun og veru áform menntmrh. og stjórnenda Ríkisútvarpsins um svæðisútvarp í framhaldi af flutningi Rásar 2 til Akureyrar?

2. Verður byggt upp svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins í þeim landshlutum þar sem það er ekki núna, svo sem á Suðurlandi og Vesturlandi?

3. Verður tekið tillit til breytinga á kjördæmaskipan við fyrirhugaða styrkingu svæðisútvarps?

Komið hefur fram í umræðunni að til standi að styrkja starfsemi Ríkisútvarpsins, þ.e. í kringum svæðisútvörpin, og þá er kannski ekki úr vegi að skoða þessi nýju kjördæmi sem við tölum gjarnan um úr þessum ræðustól. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvað er í bígerð í þessum efnum hjá hæstv. menntmrh. og stjórnendum Ríkisútvarpsins.