Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:50:53 (4517)

2002-02-13 14:50:53# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka þau svör sem fram hafa komið og þær umræður sem spunnist hafa í framhaldi af fyrirspurn minni.

Menntmrh. þarf í raun ekki að vera hissa á því þó að við spyrjum hann út í þetta. Við eigum ekki möguleika á að ræða við ágætan útvarpsstjóra á svona opinberum vettvangi um þessi mál.

Mig langar að spyrja hæstv. menntmrh., í beinu framhaldi af því að hann tók það skýrt fram að hér væri um svör útvarpsstjóra og stjórnenda útvarpsins að ræða: Er menntmrh. sammála þessum svörum?

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Við erum að tala um landshlutabundið útvarp, þ.e. að breyta Rás 2 í landshlutabundið útvarp. Það eru ákveðin svæði sem verða út undan. Það er alveg ljóst. Það hefur komið hér fram að Útvarp Suðurland nær ekki yfir allt Suðurland. Það hefur líka komið í ljós í umræðunni að menn telji að Rás 2 hafi runnið sitt skeið sem tónlistarútvarp.

Ef við ferðumst um landið kemur í ljós að þessar einkareknu útvarpsstöðvar nást því miður ekki vítt og breitt um landið. Þegar við ökum um verðum við að gæta þess að Ríkisútvarpið þarf að vera með slíkar sendistöðvar að það náist beinlínis alls staðar. Það er í raun og veru skylda Ríkisútvarpsins, m.a. vegna þess að við borgum afnotagjöld af því sem er auðvitað umdeilt mál sem menn hafa oft og tíðum rætt um. Við greiðum þau hins vegar og þess vegna er það auðvitað skylda Ríkisútvarpsins að við náum því í öllum landshlutum.

Það kann vel að vera að við getum rekið einkareknar útvarpsstöðvar í mestu þéttbýliskjörnum landsins en mér leikur forvitni á að vita það, vegna þess að mér finnst í raun verið að gera upp á milli landshluta, hvort hæstv. menntmrh. sé sammála svörum útvarpsstjóra.