Álagning skatta

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:23:14 (4531)

2002-02-13 15:23:14# 127. lþ. 77.9 fundur 380. mál: #A álagning skatta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Á þskj. 614 hefi ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um álagningu skatta:

1. Hefur komið fyrir að skattgreiðendur, sem skattstjóri hefur lagt á skatta á grundvelli tekjuáætlunar samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, hafi misst íbúðir eða eignir sínar á uppboði, orðið gjaldþrota eða farið í fangelsi vegna skattskulda jafnvel þó að mál þeirra séu enn í kærumeðferð?

2. Hefur komið fyrir að eftir að fyrrnefndir skattgreiðendur hafa misst eignir sínar, orðið gjaldþrota eða farið í fangelsi hafi kæra þeirra verið tekin til greina og álagning skattstjóra verið lækkuð eða felld niður? Ef svo er, hver er þá staða skattgreiðendanna?

3. Hefur komið fyrir að skattstjórinn í Reykjavík hafi lækkað eða fellt niður álagningu skatta en tollstjórinn í Reykjavík, sem innheimtuaðili skuldarinnar, haldi áfram óbreyttri innheimtu?

Herra forseti. Komið hefur í ljós að nokkrir nemendur detta út úr grunnskólum án þess að ljúka grunnskólanámi. Enn fremur hefur komið í ljós að fjöldi nemenda í grunnskóla hefur aldrei lesið heila bók. Einhver hluti þjóðarinnar kann sem sagt ekki að lesa og hefur ekki lestrarskilning. Þá vitum við líka um fólk sem þjáist af þunglyndi --- það er nokkuð algengt --- er í óreiðu eða í fíkn. Þessi hópur fólks, sem ég hygg að sé ekkert voða lítill, lifir í mjög flóknu þjóðfélagi þar sem hann þarf að kynna sér lífeyrissjóði, stéttarfélög, virðisaukaskatt, atvinnuleysistryggingar, húsaleigubætur og síðast en ekki síst, skattalög. Þessi hópur fólks á að telja fram. Hann bara kann það ekki.

Á móti þessum hópi fólks standa sérfræðingar á skattstofunum, sem leika sér að því í kaffitímunum að rökræða mjög flókin skattaleg vandamál. Þessi hópur fólks, sérfræðingarnir, hafa smíðað inn í skattalögin, sem við hv. þm. höfum samþykkt, afskaplega þung viðurlög til þess að eiga við hinn hópinn. Þar stendur m.a. að hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðunum skuli hann sæta sektum eða fangelsi, allt að tveimur árum, vegna hirðuleysis, vegna þunglyndis eða vegna lestrarvankunnáttu.

Síðan gerist það að áætlanir fara í gang. Skattstjóri og yfirskattanefnd vinna afskaplega hægt en dómskerfið er farið að vinna hraðar og hraðar. Það er ágætt, nema að það getur farið að úrskurða löngu áður en skattrannsókninni er lokið. Þess vegna lenda fleiri og fleiri í þeirri stöðu sem fyrirspurnin ber með sér, og þess vegna óska ég eftir svari hæstv. fjmrh. við þessum fyrirspurnum.