Álagning skatta

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:33:07 (4534)

2002-02-13 15:33:07# 127. lþ. 77.9 fundur 380. mál: #A álagning skatta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Reyndar er ég ekki alls kostar ánægður með þau þar sem hann svaraði ekki beint hvort þetta hefði komið fyrir sem um er spurt.

Það er gott að menn ætli að tileinka sér meiri þjónustulund, ekki veitir af. En ég vildi gjarnan sjá að í staðinn fyrir einhverjar tilviljanakenndar tekjuáætlanir væru þessir viðkomandi einstaklingar heimsóttir eða kallaðir fyrir, ef hægt er, og þeim leiðbeint við að telja fram því það mundi leysa vandann áður en hann verður til. Áætlanirnar sem maður hefur séð eru oft alveg út úr kortinu enda er lagaheimildin þannig að skattstjóri getur nánast áætlað það sem honum dettur í hug.

Þá er vinnsla skattstjóra og yfirskattanefndar allt of hæg. Gera þarf stórátak í því að flýta vinnslu á þessum málum þannig að menn fái úrlausn mjög fljótt. Jafnvel kæmi til greina að hv. efh.- og viðskn. eða einstakir þingmenn settu inn í lögin ákvæði um að afgreiðsla þeirra skattframtala sem menn telja fram skuli kláruð innan t.d. þriggja eða fjögurra mánaða.

Kerfið er afskaplega flókið. Það verður sífellt flóknara og ég skora á hv. efh.- og viðskn., sem þetta mál heyrir undir, að skoða skattkerfið, reyna að einfalda það og líta sérstaklega á refsiákvæðin, sem eru mjög hörð, og jafnvel að fá til sín þessa hópa sem eru út undan í þjóðfélaginu, sem kunna ekki að lesa, sem eru í þunglyndi, sem eru í fíkn, og sjá hvernig þetta kemur út.

Svo vil ég benda á að yfirlitin frá skattinum hafa verið svo óskiljanleg að ég persónulega, sem kannski er ekki nægilega greindur, hef yfirleitt alltaf gefist upp á að skilja þau. Ég hef spurt um þetta og ekki fengið svör og síðan á endanum borga ég og veit ekkert hvað ég er að borga.