Virðisaukaskattsskyldur reikningur

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:37:22 (4536)

2002-02-13 15:37:22# 127. lþ. 77.10 fundur 381. mál: #A virðisaukaskattsskyldur reikningur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Á þskj. 615 er ég með fsp. í tveim liðum til hæstv. fjmrh. um virðisaukaskattsskyldan reikning:

1. Hver ber innheimtukostnað ríkissjóðs, dráttarvexti og álag samkvæmt lögum um virðisaukaskatt sem leggst á virðisaukaskatt í vanskilum í þeim tilvikum er virðisaukaskattsskyldur reikningur fæst ekki greiddur á tilskildum tíma eða aldrei?

2. Hver ber sambærilegan kostnað vegna tekjuskatts af tekjum unninnar eða bókfærðrar þjónustu þegar innheimta þeirra dregst í mörg ár?

Herra forseti. Í skattkerfinu er það grunnatriði að tekjur eru skattskyldar þegar þeirra er aflað en ekki þegar þær eru greiddar. Þannig getur orðið mikill mismunur á og skattgreiðandinn þarf að leggja út fyrir virðisaukaskatti af tekjum sem hann er ekki búinn að fá greiddar. Sem dæmi um þetta má taka lítinn verktaka sem fær verk og skrifar út 5 millj. kr. reikning eftir árið. Af því er 1 millj. virðisaukaskattur. Hann fær þennan reikning ekki greiddan. Innan tveggja mánaða ber honum engu að síður að greiða virðisaukaskattinn, þessa 1 millj., þó að hann eigi ekki til þess fé.

Nú skulum við gefa okkur að þessi reikningur fáist aldrei greiddur, hann sé reikningur á gjaldþrota fyrirtæki. Þá má maðurinn ekki afskrifa hann nema með heimild innheimtuaðila, sýslumanns eða tollstjóra. Og tollstjóri krefst þess yfirleitt að skiptaloka í málinu sé beðið. Á meðan er málið hangandi yfir manninum í kerfinu með innheimtum og slíku og hann getur ekki rönd við reist, hann hefur aldrei fengið þessa peninga en honum ber að greiða þá. Þegar hann telur svo fram fyrir árið er hann með tekjur sem hann á líka að borga tekjuskatt af. Það sama gerist þar, hann á ekki peninga til að greiða tekjuskattinn af því að hann hefur ekki fengið tekjurnar greiddar enn þá. Þetta hleður utan á sig álagi, refsikostnaði og lögfræðikostnaði. Ef reikningurinn skyldi svo fást greiddur getur hann eingöngu fengið dráttarvexti á reikninginn. Hann fær ekki innheimtukostnað eða lögfræðikostnað eða álagið sem ríkissjóður hefur tekið. Spurning mín er af þessu tilefni.

Ég er líka með annað dæmi sem því miður er of flókið, ég get ekki lýst því en það kemur svipað út. Maður vinnur, hann fær ekki greitt en fær áætlun frá tollstjóra. Þar sem hann getur ekki greitt getur hann heldur ekki skilað inn skýrslu. Áætlunin heldur áfram að malla í kerfinu, beðið er um uppboð á íbúðinni hans, hann getur ekki losnað undan því meðan málið er í vinnslu og það er núna hjá yfirskattanefnd.