Virðisaukaskattsskyldur reikningur

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:46:22 (4539)

2002-02-13 15:46:22# 127. lþ. 77.10 fundur 381. mál: #A virðisaukaskattsskyldur reikningur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Þar kemur fram að það er skattgreiðandans að greiða álögur til ríkissjóðs og lögfræðikostnað sem fellur á kröfu ríkissjóðs hafi hann ekki fé til að greiða virðisaukaskattinn úr eigin vasa, ekki af þeim tekjum sem viðkomandi reikningur eða virðisaukaskatturinn sjálfur hefði átt að gefa honum. Hann verður sem sagt að taka fé úr eigin vasa til að greiða virðisaukaskattinn fyrir skuldarann, ella lendir hann í kostnaði sem hann náðarsamlegast má reyndar draga frá skatti næst.

Sama gerist með áætlunina á tekjur, tekjumatið, að af tekjum sem aldrei voru greiddar ber honum að borga tekjuskatt.

Þetta held ég, herra forseti, að gefi tilefni til þess að hv. efh.- og viðskn., sem um þetta mál vélar hér á Alþingi, skoði hvort ekki eigi að gera breytingar á skattkerfinu þannig að greiðsla fjármuna ákvarði skattskyldu en ekki hvenær teknanna er aflað. Það er miklu eðlilegra að ríkissjóður þurfi að bíða með að fá greiddan virðisaukaskattinn nákvæmlega eins og maðurinn sem er að vinna vinnuna og ekki síður. Mér finnst að maðurinn ætti nú að fá greiðsluna fyrst, það er hann sem lagt hefur fram vinnuna en ekki ríkissjóður. En að hann þurfi að leggja út fyrir virðisaukaskatti og jafnvel borga tekjuskatt af reikningi sem ekki hefur fengist greiddur er í mínum huga ekki viðunandi framkvæmd.