Innheimtulög

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:55:44 (4542)

2002-02-13 15:55:44# 127. lþ. 77.11 fundur 394. mál: #A innheimtulög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég fagna því vitaskuld að hæstv. ráðherra telur brýnt að slíka löggjöf þurfi að setja en maður spyr: Hvað dvelur orminn langa? Það eru tvö ár síðan frv. var síðast lagt fram. Það var fullbúið fyrir þremur árum síðan og það komu fram nokkrar athugasemdir um það frv. Maður hefði haldið að hæstv. viðskrh. hafi haft nægan tíma til að endurskoða frv. með hliðsjón af þeim athugasemdum sem þá komu fram. Manni býður í grun að um sé að ræða ágreining á milli stjórnarflokkanna um þetta mál, eins og var reyndar fyrir þremur árum síðan, sem varð til þess að frv. náði ekki fram að ganga. Það var fyst og fremst vegna þessa ákvæðis sem ég nefndi varðandi lögmennina, þ.e. að setja hámarksfjárhæð að því er varðar þóknun til þeirra.

Ég nefni að Samkeppnisstofnun hefur gert athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það er núna. Ég spyr ráðherrann hvort staðan sé ekki eins núna og var þegar Samkeppnisstofnun gerði þessa athugasemd. Athugasemdin lýtur að því að skuldari ræður engu um hvaða lögmaður kemur fram gagnvart honum við innheimtu kröfu. Þess vegna taldi Samkeppnisstofnun að þar þyrfti að bæta úr og að hið opinbera þyrfti að setja löggjöf um hámarksgjöld fyrir innheimtu.

Slík löggjöf er vel þekkt hjá öllum okkar nágrannaþjóðum, m.a. á Norðurlöndum. Ég vil nefna það að Neytendasamtökin hafa ítrekað kallað eftir slíkri löggjöf, þau telja m.a. að staða skuldara hér á landi sé afar veik og innheimtumenn geti hagað sér eins og þeir vilja við gjaldtöku af þeim sem lenda í kröggum með greiðslubyrði sína.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra ekki málið vera í hinu mesta klúðri eins og staðan er í dag? Er ekki eðlilegt, herra forseti, að hún flýti afgreiðslu þessara mála og reyni að koma frv. í gegn á yfirstandandi þingi? Ég tel að staðan eins og hún er núna sé ekki boðleg fyrir neytendur og að lögmenn geti hagað sér nákvæmlega eins og þeir vilja meðan málið er í því klúðri sem það er nú.