Undanþága frá banni við samkeppnishömlum

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:10:48 (4548)

2002-02-13 18:10:48# 127. lþ. 77.12 fundur 461. mál: #A undanþága frá banni við samkeppnishömlum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þátt þeirra í umræðunni. Ég held að ástæða þess að olíufélögin hafa út af fyrir sig ekki sóst beint eftir þessari undanþágu helgist væntanlega að nokkru leyti af hefðinni. Það hefur bara verið þannig að í ýmsum byggðarlögum hafa menn gert sér grein fyrir að ekki væru rekstrarlegar forsendur fyrir því að halda úti mjög mörgum bensínstöðvum. Reynslan hefur kennt mönnum það og mönnum er þetta einfaldlega ljóst.

Víða hafa bæjarfélögin eða íbúar sveitarfélaganna verið að sækja á um það gagnvart olíufélögunum að þau lokuðu ekki þeirri þjónustu sem er til staðar vegna þess að þjónustan er svo mikilvæg. Sums staðar er þetta líka forsenda fyrir því að hægt sé að halda úti almennum verslunarrekstri. Þar sem verslanir hafa verið að leggja upp laupana hafa menn horfið til þess að auka vöruúrval í þessum bensínsjoppum og þannig tryggt a.m.k. dagvöruverslun þar sem hún hefði ella verið í hættu.

Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, mjög mikilvægt að sjónarmið hæstv. ráðherra komi skýrt fram í þessari umræðu og ég kalla eftir því umfram það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að sú skoðun sé fyrir hendi hjá hæstv. ráðherra, sem bæði er ráðherra byggðamála og ráðherra samkeppnismála, að slíkur samrekstur bensínstöðva eða að sú staða að ein bensínstöð sé í byggðarlagi, sé á engan hátt í ósamræmi, að mati hæstv. ráðherra, gagnvart samkeppnislögunum og að þessi almenna undanþáguheimild í 16. gr. sé nægjanleg trygging fyrir því að hægt sé að standa þannig að málum vegna þess einfaldlega að hér er býsna mikið í húfi. Þessi þjónusta er mjög mikilvæg og stundum forsenda fyrir því að hægt sé að halda úti, eins og ég sagði áðan, öðrum almennum verslunarrekstri.