Aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:15:00 (4550)

2002-02-13 18:15:00# 127. lþ. 77.13 fundur 400. mál: #A aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í ört breytilegum heimi er mikilvægt fyrir sveitarfélögin á Íslandi, ekki síður en aðra aðila, að fylgjast með því sem sambærilegar stofnanir erlendis eru að fást við. Samningurinn um EES nær þó ekki til byggðamála. Eigi að síður hafa t.d. Norðmenn og Svisslendingar tekið þátt í INTERREG-frumkvæðisverkefnum Evrópusambandsins en þar sem þessi ríki eru ekki aðilar að sambandinu greiða þau sjálf allan kostnað við þátttöku og skiptist hann á milli ríkisvalds, sveitarstjórna og fyrirtækja.

Það er mat byggðafulltrúa Norðmanna í Brussel að þessi þátttaka hafi komið af stað afar jákvæðum breytingum í hugarfari og starfsháttum norskra sveitarfélaga, hafi opnað þeim ný tækifæri og gert þau alþjóðlegri í vinnubrögðum.

Herra forseti. Sumir hugsa erlend samskipti ekki bara í debet og kredit heldur horfa líka til gildis þeirrar samvinnu sem gefst kostur á. Fjölþjóðleg samvinna og sameiginlegar lausnir veita fólki nefnilega oft og einatt nýja sýn á eigin vandamál enda oft við svipuð vandamál að glíma um allan heim. Hjörtunum svipar jú saman í Súdan og Grímsnesinu, eins og skáldið sagði.

Mér hefur skilist, herra forseti, að Íslendingum hafi verið boðin þátttaka í svokölluðum Northern Periphery verkefnum innan INTERREG-áætlunarinnar. Í þeim verkefnum hafa Skotar, Finnar, Svíar, Norðmenn, Grænlendingar og Færeyingar fullan þátttökurétt. Um er að ræða sérstök norðurslóðaverkefni eins og nafnið ber með sér og er þeim ætlað að glíma við þann vanda á norðlægum slóðum sem tengist atvinnu- og byggðaþróun, samgöngum o.fl. Markmiðið er m.a. að laða að fjárfestingu í vaxandi og nútímalegum atvinnugreinum. Þetta hlýtur að vera áhugavert fyrir stjórnvöld, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga.

Ég hef því sett fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. iðnrh. á þskj. 657:

1. Hvernig er aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins, Northern Periphery, háttað?

2. Hvaða íslensk samtök, stofnanir eða sveitarfélög tengjast eða hafa sýnt því áhuga að taka þátt í áætluninni?

3. Hver er aðkoma Byggðastofnunar að áætluninni og þeim verkefnum sem eru fyrirsjáanleg eða í gangi?

Síðasta spurningin, herra forseti, er til komin vegna þess að flogið hefur fyrir að þátttaka í þessum verkefnum hafi ekki fengið byr í stjórn Byggðastofnunar. Hver hefur því úrslitaáhrif í þessu efni, hver er staða Íslands gagnvart þessum mikilvægu verkefnum?