Aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:18:01 (4551)

2002-02-13 18:18:01# 127. lþ. 77.13 fundur 400. mál: #A aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mun leitast við að svara hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur en hún hefur lagt fram nokkrar spurningar um INTERREG-áætlunina.

Fyrsta spurningin er, með leyfi forseta:

,,Hvernig er aðild Íslands að INTERREG-áætlun Evrópusambandsins, Northern Periphery, háttað?``

Ísland á ekki beina aðild að Northern Periphery áætlun ESB. Samkvæmt till. til þál. um stefnu í byggðamálum, sem nú er til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna, er gert ráð fyrir að Ísland gerist aðili að áætluninni. Gert er ráð fyrir að það mundi kosta ríkissjóð um 100 millj. kr. að taka þátt í NPP á tímabilinu 2002--2006.

Spurning nr. 2:

,,Hvaða íslensk samtök, stofnanir eða sveitarfélög tengjast áætluninni eða hafa sýnt því áhuga að taka þátt í henni?``

Samstarfsaðilar í verkefnum geta verið félagasamtök, sveitarfélög, ríkisstofnanir, háskólar, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Þátttaka í einstökum verkefnum getur verið blönduð milli þessara hópa, og fleiri en einn þátttakandi getur komið frá hverju landi. Í hverju verkefni þurfa að vera samstarfsaðilar frá a.m.k. þremur löndum, þar af þarf eitt land að koma frá ESB.

Innan NPP rúmast ótiltekinn fjöldi samstarfsverkefna. Áherslur verkefna geta verið af þrennum toga, í fyrsta lagi verkefni tengd samgöngum og fjarskiptamálum, í öðru lagi verkefni tengd fyrirtækjaþróun og í þriðja lagi verkefni tengd eflingu samfélaga.

Aðilar sem hafa tekið þátt í umsóknum eru Þróunarstofa Austurlands, Fjarðabyggð, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun og Háskólinn á Akureyri. Aðilar sem hafa sýnt áhuga eru Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands, Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar, Atvinnuráðgjöf Vesturlands, Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra, Bændasamtök Íslands, Ferðamálasetur Íslands, Byggðarannsóknastofnun, jarð- og landfræðiskor HÍ, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar, Markaðsstofa Austurlands, Óperustúdíó Austurlands og Austur-Hérað.

Þriðja spurning:

,,Hvernig tengist Byggðastofnun áætluninni og þeim verkefnum sem eru fyrirsjáanleg eða í gangi?`

Starfsfólk Byggðastofnunar fylgist náið með undirbúningi NPP og forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, Bjarki Jóhannesson, tók þátt í vinnuhópi samstarfslandanna sem vann að mótun áætlunarinnar. Starfsfólk stofnunarinnar hefur einnig fylgst með þróun verkefna innan áætlunarinnar og sótt svokölluð verkefnastefnumót.

Starfsmaður stofnunarinnar, Ingunn H. Bjarnadóttir, sat sem áheyrnarfulltrúi stjórnarfund NPP 17.--18. janúar sl. á vegum iðnrn. Óskað hefur verið eftir þátttöku Byggðastofnunar í tveimur verkefnum. Aðrir þátttakendur frá Íslandi eru Þróunarstofa Austurlands, Fjarðabyggð, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í fyrra verkefninu, Small Town Networks, verður sett af stað tilraunaverkefni í byggðaþróun sem tekur til þéttbýlisstaða á Austurlandi. Þessi tilraun hefur þegar staðið yfir í Skotlandi í þrjú ár og hefur tekist mjög vel. Því er áhugi á að reyna það í fleiri löndum, svo sem Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi. Verkefnið stendur í þrjú ár og er stjórnað frá The Highland Council í Skotlandi. Hugmyndin er að þyrping bæjarfélaga í hverju landi deili reynslu sinni og sérfræðiþekkingu og nýti jákvæð áhrif sem þessi þekking veitir til að vinna að sameiginlegri verkefnaáætlun. Ávinningur verkefnisins verður að þróa aðferðafræði eða verkfræði til að blása nýju lífi í þyrpingu bæja í öllum þátttökulöndunum.

Ef vel tekst til hér á landi er hugmyndin að hægt verði að nota aðferðafræðina í öðrum landshlutum og nýta þar með þá reynslu sem sveitarfélög á Austurlandi munu hafa öðlast.

Seinna verkefnið, Counsellor Seminar, miðar að því að leiða saman sveitarstjórnarmenn frá Västerbotten í Svíþjóð, Highlands í Skotlandi, Norður-Noregi og frá Aust- og Vestfjörðum Íslands. Á sameiginlegum fundum og námskeiðum munu þessir lykilaðilar skiptast á reynslu við ákvarðanatöku varðandi málefni sveitarfélaga í tengslum við byggðamál. Markmiðið er að sveitarstjórnarmenn ræði saman og skiptist á reynslu af sameiginlegum vandamálum sveitarfélaga á norðurslóðum auk þess að fá innsýn í gildi alþjóðasamvinnu á þessum vettvangi. Verkefninu verður stjórnað af Kommunförbundet í Västerbotten í Svíþjóð og mun verkefnið standa í þrjú ár.