Álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:25:27 (4553)

2002-02-13 18:25:27# 127. lþ. 77.14 fundur 471. mál: #A álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GunnS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég er einn á meðal fjölmargra Austfirðinga sem binda miklar vonir við að álver rísi á Reyðarfirði. Biðin eftir álverinu er orðin æðilöng og því miður hafa margir gefist upp á biðinni og flust á brott.

Við Íslendingar eigum langvarandi reynslu af árangurslausum viðræðum um stóriðjuframkvæmdir. Jafnan hafa slíkar viðræður skapað miklar væntingar hjá fólki á grundvelli fyrirheita sem stjórnmálamenn gefa. Af þessu hafa Austfirðingar sérstaklega mjög dýrkeypta reynslu varðandi væntingar um stóriðjuframkvæmdir á Reyðarfirði sem aldrei varð úr, fyrst og fremst vegna þess að treyst var á einn erlendan fjárfesti sem brást er á reyndi. Það veldur vonbrigðum og hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og reynslan kennir.

Nú liggur fyrir að þeir aðilar sem standa í viðræðum um álver á Reyðarfirði hafa ákveðið að segja af eða á þann 1. sept. nk. hvort af framkvæmdum verði eða ekki. Mjög mikilvægt er að fyrir 1. sept. verði undirbúið með borði fyrir báru þannig að verkefnið um álverið renni ekki beina leið út í sandinn ef viðræðurnar reynast árangurslausar. Á þetta legg ég sérstaka áherslu og í því sambandi spyr ég hæstv. iðnrh.:

Hefur ríkisstjórnin undirbúið aðra valkosti varðandi fjárfesta sem stuðlað gætu að því að álver rísi á Reyðarfirði ef samningaviðræður við Norsk Hydro um byggingu álvers verða árangurslausar?