Álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:31:49 (4556)

2002-02-13 18:31:49# 127. lþ. 77.14 fundur 471. mál: #A álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GunnS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Þau valda að vísu nokkrum vonbrigðum og þeim helst að ef þessar viðræður reynast árangurslausar má heita að allt verkefnið sé í uppnámi, sem mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir byggð á Austurlandi því svo margir binda vonir og væntingar sínar við að þetta megi ganga eftir. Því miður er reynsla síðastliðinna ára ekki góð. Því var lofað fyrst 1995 að framkvæmdir vegna álvers gætu hafist 1996. Síðan eru liðin sex ár og gengið hefur á ýmsu í viðræðum við Norsk Hydro.

Ég vona svo sannarlega að þær viðræður sem nú eru í gangi og lýkur 1. sept. leiði til jákvæðrar niðurstöðu. Það vona ég svo sannarlega. En ef einvörðungu er verið að ræða við einn meginfjárfesti, Norsk Hydro, eins og hæstv. ráðherra hefur lýst hér yfir, þá er ljóst að samningsstaða þess fyrirtækis er afar sterk, þ.e. ef þeir hafa upplýsingar og vitneskju um að ef þeir verði ekki með þá verði tæpast nokkuð úr verkefninu. Það verður að teljast afar sterk samningsstaða.

Því vil ég hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina alla til að huga vel að stöðunni ef til þess kynni að koma að ekki verði úr samningum sem ég vona svo sannarlega að verði ekki.