Val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:51:47 (4565)

2002-02-13 18:51:47# 127. lþ. 77.17 fundur 415. mál: #A val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgrh. Nokkuð er síðan ég lagði hana fram þannig að ég hef fengið svar við hluta af fyrirspurninni. Ég gleðst mjög yfir því að samgöngumál til og frá Vestmannaeyjum séu hér til umræðu í dag, bæði í tilefni fyrirspurnar minnar og fyrirspurnar hv. þm. hér áðan.

Sérstaða Vestmanneyinga í samgöngumálum er einstök á landsvísu. Þessi mál eru að vonum viðkvæm í Vestmannaeyjum og í raun víðar. Sumir taka svo djúpt í árinni að segja að ónógar samgöngur hafi leitt til þess að verulegir búferlaflutningar hafi átt sér stað frá Vestmannaeyjum á undanförnum árum og að samgöngumálin séu í raun og veru meginástæða þess.

Herjólfur er þjóðvegur Vestmanneyinga. Með jöfnu millibili þarf Herjólfur að fara í slipp og þegar að því kemur hefur skipið yfirleitt verið lengur en reiknað hefur verið með og jafnvel hafa fallið niður ferðir með skipum sem tekin hafa verið á leigu í ákveðinn tíma. Síðast leysti Fagranesið Herjólf af hólmi en það skip hefur verið selt og heimamenn töldu reyndar að það skip hentaði illa.

Í raun má segja að ekkert íslenskt skip geti leyst Herjólf af í þessum tilfellum eftir að gengið var þannig frá Akraborginni, sem heitir nú björgunarskipið Sæbjörg, að bíladekki hennar var lokað. Ekki var tekið tillit til ábendinga Vestmanneyinga um að halda þessum möguleika opnum á Sæbjörginni.

Það kemur sér mjög illa fyrir allt atvinnulíf í Vestmannaeyjum þegar svona stendur á. Það kemur sér illa fyrir ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein og viðkvæm. Það kemur sér afar illa fyrir fyrirtæki í Vestmannaeyjum, t.d. starfar nú í Vestmannaeyjum nýtt fyrirtæki sem heitir Íslensk matvæli og þarf mjög á þessari þjónustu að halda. Það kemur sér illa fyrir vöru- og fiskflutninga og það kemur sér einnig illa fyrir íbúa svæðisins og aðra þá sem þurfa að heimsækja eyjarnar.

Vorið er sá tími sem kemur sér hvað allra verst að setja Herjólf í slipp. Nú höfum við reyndar fengið þær upplýsingar að búið sé að fresta því til haustsins að Herjólfur fari í slipp vegna þess að í Vestmannaeyjum er mikil ferðamannaþjónusta og ferðamannastraumurinn er mestur að sumrinu og vorinu.

Ég gleðst einnig yfir því að fallið hefur verið frá því, eins og kom fram í bæjarblaðinu Fréttum, að hvalaskoðunarskipið Brimrún úr Stykkishólmi verði notað til þess að leysa Herjólf af. Þessar upplýsingar höfum við þegar fengið. Ég beini hins vegar tveimur öðrum spurningum til hæstv. samgrh.

,,Hefur komið til greina að kanna möguleika á að nota stærra og öflugra skip með bíladekki til að hægt sé að ferja bíla um leið og farþega og vörur á meðan Herjólfur er í slipp?

Hefur verið athugað hvort möguleiki sé að leigja t.d. loftpúðaskip eða svifnökkva til þessara flutninga í tilraunaskyni?``