Val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 18:59:47 (4567)

2002-02-13 18:59:47# 127. lþ. 77.17 fundur 415. mál: #A val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er í raun um samtvinnaðar fyrirspurnir að ræða, þ.e. sú sem flutt var áðan og sú sem nú er lögð fram, og miða þær að því að tryggja sem best öryggi þeirra sem búa í Vestmannaeyjum, bæði hvað varðar daglegar samgöngur og ekki síður á meðan Herjólfur þarf að fara í slipp.

En ég vil beina spurningu til hæstv. ráðherra: Hefur verið skoðað hvort til greina komi t.d. að niðurgreiða flug með einhverjum hætti á meðan Herjólfur er í slipp? Þó að Baldur leysi Herjólf af er samt sem áður um að ræða skip sem tekur mun færri farþega en Herjólfur gerir.