Niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:06:58 (4571)

2002-02-13 19:06:58# 127. lþ. 77.19 fundur 444. mál: #A niðurfelling veggjalds í Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem er afar athyglisverð.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. spurði hann í fyrsta lagi: ,,Hefur samgönguráðuneytið kannað hvort Vegagerðin gæti yfirtekið að fullu og öllu skuldbindingar Spalar hf. og þar með rekstur Hvalfjarðarganganna, eins og annarra samgöngumannvirkja á Íslandi, og að umferð um Hvalfjarðargöng verði gjaldfrjáls?``

Svar mitt er: Samgrn. hefur ekki látið kanna það sem spurt er um og þar af leiðandi liggur ekkert nánar fyrir um það.

Í öðru lagi er spurt: ,,Til hvaða aðgerða þarf að grípa til að svo geti orðið, lagalegra eða annarra?``

Svar mitt er: Það er mat samgrn. að ef ákvörðun yrði tekin um að Vegagerðin yfirtæki að fullu eða öllu skuldbindingar Spalar hf. fæli það í sér mjög flóknar og umfangsmiklar samningaviðræður við lánardrottna, því á bak við liggur fjöldinn allur af samningum við innlenda og erlenda aðila sem stóðu að fjármögnum framkvæmdanna.

Ekki kemur fram í mál fyrirspyrjanda hvort reiknað sé með að Vegagerðin greiddi þessar skuldir strax upp að fullu. Ef til stæði að greiða lánin upp er mjög líklegt að slíkt mundi kosta nokkur hundruð milljónir til þess að vega upp tapaðar vaxtatekjur lánardrottna. Uppgreiðslukostnaður að mati Íslandsbanka frá júlí 2001 eru 517 millj. kr. Langtímaskuldir samkvæmt síðasta ársreikningi nema 6,5 milljörðum og skammtímaskuldir 400 millj., eða samtals 6,9 milljarðar. Afborganir og vextir sennilega um 800 millj. kr. á ári þegar þær koma inn af fullum þunga, en endurgreiðslur til fjármögnunar- og tryggingafélagsins John Hancock eru ekki byrjaðar enn. Ekki er þó með vissu hægt að segja til um lyktir viðræðna um uppgreiðslu.

Ef fyrirspyrjandi á við það tilvik að lánin yrðu færð frá Speli á Vegasjóð yrði þetta einfaldara, ef lánardrottnar samþykktu slíka tilfærslu, en væntanlega mundi vegafé til annarra verka skerðast sem því næmi næstu 16 árin eða svo, þ.e. um það sem nemur afborgunum og vöxtum, um 800 millj., sem áður var getið um.

Í þriðja lagi var spurt: ,,Hversu miklum tekjum hefur virðisaukaskattur af umferð um Hvalfjarðargöng skilað ríkissjóði síðan þau voru tekin í notkun?``

Svarið er: Áætlað er að innheimta ríkissjóðs á virðisaukaskatti hafi numið 363 millj. kr. tímabilið frá opnun ganga til 31. desember 2001. Þetta gerir um 100 millj. á ári að meðaltali.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Hver er kostnaður ríkissjóðs af göngunum á sama tíma?``

Svar: Kostnaður ríkissjóðs af göngunum á sama tíma felst í endurgreiðslu láns vegna vegtengingar að þeim í Hvalfirði. Frá opnun ganga greiðir ríkissjóður því samkvæmt veg\-áætlun 40 millj. á ári í tíu ár, sem nemur þá um 400 millj. kr.

Í fimmta lagi er spurt: ,,Telur ráðherra eðlilegt að Snæfellingar, Borgfirðingar og Akurnesingar standi undir meira en helmingsfjármögnun þessa hluta hringvegarins um Ísland?``

Svar mitt er að það er mjög erfitt að gefa sér út af fyrir sig hverjir fari aðallega um göngin. Hins vegar er alveg ljóst að þeir sem næst göngunum búa nota þau langmest. Það liggur í augum uppi að íbúar þeirra svæða sem hv. þm. nefnir greiða stóran hluta af þessu án þess að hægt sé að fullyrða um það. Ekki hefur verið gerð nein greining á umferðinni um göngin eftir búsetu. En þetta liggur nokkuð ljóst fyrir.

Að lokum vil ég segja að ég tel eðlilegt að þetta verði skoðað og mun láta gera það. Ég tel rétt að það gerist í tengslum við afgreiðslu samgönguáætlunar sem vonandi verður lögð fram á næsta hausti. Þar verður m.a. fjallað almennt um gjaldtöku vegna umferðarmannvirkja. Þá verður mótuð stefna og tekin endanleg ákvörðun um hvernig á þessu máli verður tekið og hvernig gjaldtöku vegna annarra umferðarmannvirkja verður háttað.