Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:15:59 (4574)

2002-02-13 19:15:59# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:15]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Eitt stærsta heilbrigðisvandamál kvenna í heiminum eru afleiðingar þess mannréttindabrots og þeirra misþyrminga sem umskurður kvenna er. Afleiðingarnar eru margvíslegar og alvarlegar: bráðalost, sýkingar í þvagrás og leggöngum, stífkrampi, blóðeitrun, HIV-smit, lifrarbólga B, ófrjósemi, æxla- og kýlamyndun og oft dauði, svo fátt eitt sé nefnt.

Þessi glæpur, eða skurðaðgerð við afar frumstæðar aðstæður, viðgengst í 28 Afríkulöndum og víða í löndum múslíma, í Indónesíu, Sri Lanka, Malasíu og Indlandi, í Miðausturlöndum, Egyptalandi, Óman, Jemen og Arabísku furstadæmunum og einnig hjá frumstæðum ættbálkum í Suður-Ameríku.

Amnesty International áætlar að 135 milljónir kvenna og stúlkna í heiminum í dag hafi þolað þessar misþyrmingar á kynfærum sínum og að um 2 milljónir stúlkubarna séu umskornar á hverju ári. Það eru 6 þúsund telpur á dag, telpur 4--12 ára. Þetta eru hroðalegar staðreyndir.

Þó að við höfum sem betur fer ekki reynslu af þessum voðaverkum tel ég að okkur beri að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn þeim. Í fjölþjóðlegum samfélögum í okkar vestræna heimi er þetta orðið nokkuð stórt vandamál. Vitað er að umskurður á stúlkubörnum hefur viðgengist í Danmörku, Bretlandi, Svíþjóð, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Þar eru þessar aðgerðir framkvæmdar í trássi við lög viðkomandi landa. Þetta eru alvarleg mannréttindabrot, brot á sáttmálum sem við erum aðilar að.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur á undanförnum árum hvatt aðildarríki sín til þess að taka skýra afstöðu gegn þessum aðgerðum sem ógna heilsu kvenna víða um heim. Þó að við þekkjum ekki umskurð kvenna hér á landi erum við að verða fjölmenningarlegt samfélag og e.t.v. tímaspursmál hvenær þetta berst hingað í ljósi reynslu nágrannalanda okkar. Í ljósi þess hve stórt heilsufarsvandamál kvenna þetta er og í ljósi ályktana WHO þá spyr ég hæstv. heilbrrh. hvort hann telji tímabært að setja í lög hér á landi bann við umskurði stúlkna eða kvenna og viðurlög við slíkum verknaði og þá sem fyrirbyggjandi aðgerð og skýra stuðningsyfirlýsingu Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalegu misþyrmingum á konum í heiminum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru áform um að ákvæði í þessa veru verði lögfest hér á landi?