Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:18:37 (4575)

2002-02-13 19:18:37# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:18]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur beint til spurningu um hvort ég telji tímabært að setja í íslensk lög bann við umskurði stúlkna og viðurlög við slíkum verknaði. Með fyrirspurninni vekur þingmaðurinn máls á mjög mikilvægu vandamáli sem hefur verið talsvert í umræðu hér á landi síðustu vikur, m.a. vegna nýlegrar útgáfu bókar þar sem fórnarlamb umskurðar frá einu Afríkuríki greinir frá hörmulegri lífsreynslu sinni vegna umskurðar.

Umskurður mun vera aldagömul hefð án þess að menn viti í raun uppruna hennar. Eftir því sem næst verður komist tala engin trúarbrögð fyrir umskurði og mun hann hvorki nefndur í Biblíunni, Kóraninum né öðrum trúarritum en á sér þrátt fyrir það stað jafnt meðal kaþólskra, mótmælenda, múslíma sem og annarra trúflokka. Hins vegar er ekki óalgengt að umskurður sé réttlættur á trúarlegum forsendum og á þessi hefð sér þannig djúpar rætur. Mikill samfélagslegur þrýstingur er á að umskurður stúlkna sé framkvæmdur þar sem slíkt hefur tíðkast. Talið er að um 130 milljónir kvenna og stúlkna hafi verið umskornar í um 30 löndum, einkum Afríkulöndum, en í sumum þeirra er nánast hver einasta kona umskorin.

Ég sé ekki ástæðu til að lýsa verknaði þessum sem framkvæmdur er á ýmsa vegu. Hins vegar er ljóst og vel þekkt að alvarlegir fylgikvillar geta fylgt í kjölfarið, sumir lífshættulegir. Algengt er að aðgerðin sé framkvæmd án sóttvarna og deyfingar við frumstæðar aðstæður. Geta konur borið alvarleg mein eftir aðgerðina alla ævi og dánartíðni er veruleg. Þetta líkamlega ofbeldi á ungum stúlkum, sem í senn niðurlægir þær og limlestir, hljóta allir að fordæma harkalega.

Svo vikið sé að málum hér á Íslandi eru engar tiltækar upplýsingar um að þessar aðgerðir séu eða hafi verið framkvæmdar hér. Ljóst er, herra forseti, að þessi aðgerð getur ekki talist til heilbrigðisþjónustu heldur hlýtur hún að falla undir líkamlegt ofbeldi. Um það gilda refsilög líkt og um annað líkamlegt ofbeldi. Réttur stúlknanna gegn þessu ofbeldi er varinn í stjórnarskrá, í lögum um réttindi sjúklinga, barnaverndarlögum, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og víðar.

Umskurður á stúlkum telst ekki vera læknisverk og því er læknum óheimilt að framkvæma hann samkvæmt læknalögum. Ef læknir framkvæmir slíka aðgerð gæti hann þurft að sæta viðurlögum samkvæmt læknalögum og samkvæmt refsilöggjöfinni. Ef annar aðili en læknir mundi framkvæma umskurð á stúlku hér á landi teldist það líkamsmeiðing í skilningi refsilöggjafarinnar. Ekki er vitað um slík tilvik hér.

Af ofansögðu tel ég ljóst að umskurður á stúlkum er algjörlega óheimill hér á landi. Í löndum innan Evrópu er það talið refsivert samkvæmt almennri refsilöggjöf að umskera stúlkubörn. Sérlög um bann við umskurði stúlkna og viðurlög við slíkum verknaði eru sjaldgæf. Þó er þau að finna í Svíþjóð og í Bretlandi.

Þar sem ekki er vitað um slík tilvik hér á landi er spurning hvort tímabært sé að setja bann við umskurði í íslenska refsilöggjöf. Þó mætti segja að það felist ákveðin yfirlýsing í slíku fortakslausu banni og viðurlögum ef slíkt er gert. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu og í raun væri það í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland lögfesti árið 1992. Þar er m.a. kveðið á um að aðildarríki skuli gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Enn fremur er kveðið á um að aðildaríki skuli gæta þess að ekkert barn sé látið sæta pyntingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Vil ég í þessu sambandi aftur geta laganna um réttindi sjúklinga, barnaverndarlaga og læknalaga.

Jafnframt er það skoðun mín að breyting á refsilöggjöfinni þar sem kveðið væri sérstaklega á um þetta heyri, eðli málsins samkvæmt, undir dómsmrn. En ég vona að hv. þm. hafi fengið svar við fyrirspurn sinni og sé þar með kunnugt um skoðanir mínar í þessum efnum.