Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:47:19 (4591)

2002-02-13 19:47:19# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GunnS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:47]

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og sérstaklega þakka ég hæstv. ráðherra fyrir góðan hug til þessa máls. Ég þakka einnig hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu.

Ég er sammála því almenna viðhorfi sem hér hefur komið fram, að gera þurfi úttekt á stöðu þessara mála og reyna að ná utan um málið. Þegar við ræðum óhefðbundnar lækningar þá hugsum við jafnan um þá starfsemi með þeim hætti að hún fari fram utan heilbrigðiskerfisins. En mér segir svo hugur að óhefðbundnum lækningum sé jafnvel líka beitt innan heilbrigðiskerfisins. Í hve miklu mæli veit ég ekki en mér er kunnugt um að slíkum aðferðum sé beitt þar í einhverjum mæli. Þetta þarf líka að skoða.

Óhefðbundna læknastarfsemin sem fer fram utan heilbrigðiskerfisins er mörgum mjög dýr. Alvarlega sjúkt fólk leitar eðlilega eftir allri þeirri hjálp sem býðst, reynir allt. Það leitar líka á þessi svið óhefðbundinna lækninga. En þessi þjónusta er mörgum mjög dýr og alvarlega veiku fólki hreinlega ofviða. Ég hvet því til þess að afgreiðslu þessa máls verði hraðað í þinginu og ég veit að hæstv. ráðherra liggur ekki á liði sínu þegar til hans kasta kemur við að skipa þessa nefnd og segja henni að vinna hratt, örugglega og vel.