Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:49:21 (4592)

2002-02-13 19:49:21# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er kannski óvenjulegt að ráðherrar eða fagráðherrar mæli með samþykkt tillagna sem liggja fyrir nefndum hér í Alþingi. Hins vegar er það svo í þessu tilfelli að ég tel, í ljósi vaxandi umræðu um þessi mál, að nauðsynlegt sé að vinna skipulega að skoðun á því málefni sem hér um ræðir. Ég gæti auðvitað skipað nefnd til þess án atbeina Alþingis en mér finnst, af því að málið er hér fyrir þinginu, að það mundi styrkja málið að þingviljinn komi í ljós hvað þetta varðar. Þess vegna nefndi ég þessa þáltill. í máli mínu.

Ég hef í sjálfu sér ekkert lagt neinn dóm á réttmæti eða óréttmæti óhefðbundinna lækninga. Ég hef ekki forsendur til þess. Ég tel að þeirrar nefndar, ef hún verður skipuð, sem ég hef lýst mig fylgjandi, bíði mikið verk. Þetta er ekki einfalt mál. Það er langt frá því.

Ég verð var við það, bæði í fyrirspurnum hér á Alþingi og víðar, að þessa umræða fer mjög vaxandi í samfélaginu. Þess vegna held ég að rétt sé að setja af stað vinnu hinna færustu manna í að fara yfir þetta mál og er nausynlegt að þau skilyrði sem ég nefndi í svari mínu verði uppfyllt í þessu efni.