Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:51:46 (4593)

2002-02-13 19:51:46# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:51]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Á síðustu 50 árum hefur maðurinn valdið miklum spjöllum sem stefnt hafa í hættu lífinu í sjónum og skaðað hafið. Má nefna ofveiði, mengun frá landi, breytingar á skipulagi þar sem strandlengjum hefur verið breytt í byggð eða iðnaðarsvæði. Margt af þessu er talið hafa breytt lífsskilyrðum í sjónum. Víða um heim eru stjórnvöld að átta sig á þessu og grípa til ráðstafana til að draga úr spjöllum af mannavöldum. Svo er einnig hér á landi og er það vel. Um slíkar aðgerðir hljóta menn að sameinast.

Í fréttum hér á landi sl. haust kom fram að Rannsóknarsetrið í Eyjum hefur í félagi við Líffræðistofnun Háskóla Íslands fest kaup á svonefndum dvergkafbát sem farið getur niður á 2 km dýpi. Í viðtali við Pál Marvin Jónsson, forstöðumann Rannsóknarsetursins, í Fréttablaðinu 1. okt. 2001, segir hann að þeir reyni að gefa sér ekki niðurstöður fyrir fram en hafi sérstakan áhuga á að skoða ástand kóralrifjanna úti fyrir landi, vitandi að þau eru einkar mikilvægur hlekkur í öllu vistkerfi sjávar.

Í útvarpsþætti í Ríkisútvarpinu í Auðlindinni 7. sept. 2001, sagði, með leyfi forseta:

,,Nýlega var gert opinbert myndband með myndum af öldruðum djúpsjávarkóröllum sem vaxa undan strönd Nova Scotia í Kanada. Vísindamenn vilja að þessir kórallar verði friðaðir sem uppeldisstöðvar fyrir fisk en einnig vegna þess að þeir geymi í sér verðmætar upplýsingar um veðurfarsbreytingar. Leiðangur sem tók myndirnar fór um svæðið sem liggur á milli Browns Bank og Georges Bank og vísindamennirnir vilja að sundið þar í milli, Norðaustursund, verði friðlýst svæði.

Það voru tólf vísindamenn frá fimm kanadískum háskólum sem fóru leiðangurinn í samstarfi við hafrannsóknastofnunina kanadísku og var leiðangurinn styrktur af opinberu fé. Umhverfissamtök nota nú myndbandið, samtals 22 klukkustundir, til að styðja baráttu sína gegn togveiðum. Á myndunum sést að þorsk- og karfaseiði halda sig í skjóli kórallanna.``

Ég legg því eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. umhvrh.:

Er merkar náttúruminjar að finna á hafsbotni umhverfis Ísland sem ef til vill bæri að friða?

Þar hef ég í huga t.d. svæði þar sem djúpsjávarkóralla kynni að vera að finna.

Eru fleiri staðir á hafsbotni umhverfis landið friðaðir en sá hluti botns Eyjafjarðar sem hæstv. ráðherra lagði sig fram um að friða á síðasta ári?