Merking matvæla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:15:00 (4604)

2002-02-13 20:15:00# 127. lþ. 77.24 fundur 446. mál: #A merking matvæla# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn og vekja athygli á því að hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Þessi fyrirspurn er tvíþætt og bæði málin verðskulda mikla og öfluga umræðu á Alþingi og ég hvet til þess að hún geti farið fram sem allra fyrst.

Vitað er að eitt stærsta deilumálið í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hefur verið um merkingar á erfðabreyttum afurðum. Ég ætla bara að lýsa því hér yfir að ég brýni hæstv. umhvrh. til að veita fullkomið viðnám í þessum efnum og standa með þeim sem vilja ströngustu reglurnar. Það kostar auðvitað baráttu. En ég held að það skipti verulegu máli fyrir íslenska neytendur að allar vörur verði kirfilega merktar sem innihalda erfðabreyttar afurðir eða vörur unnar úr erfðabreyttum lífverum. Ég held að það sé algjört grundvallaratriði. Ég tel að það sé þarft að áminna og brýna hæstv. ráðherra í þessum efnum.