Merking matvæla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:16:16 (4605)

2002-02-13 20:16:16# 127. lþ. 77.24 fundur 446. mál: #A merking matvæla# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:16]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu, ekki síst varaþingmani Samfylkingarinnar á Suðurlandi, Katrínu Andrésdóttur, sem lagði hana hér fram og hefði örugglega verið þess miklu færari að rökstyðja hana en ég. Ég vil eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hvetja hæstv. ráðherra til þess að setja þessa reglugerð sem allra fyrst. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá fyrirspyrjanda, hv. varaþingmanni Katrínu Andrésdóttur, er þessi reglugerð, sem liggur á borði landbrh. og hefur beðið þar einhvern tíma, reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár. Hún mun hafa það í för með sér ef hún kemst í gagnið að neytandinn getur valið sér, eins og Katrín Andrésdóttir orðar það, lambalæri af Ströndum eða þaðan sem honum finnst besta varan koma.

Varðandi upprunamerkingar t.d. á grænmeti þá er það ekki bara hagsmunamál neytenda að við vitum hvaðan varan kemur sem við kaupum. Það er líka hagsmunamál framleiðenda því menn skulu ekki gleyma að íslenskir grænmetisframleiðendur bera þá rýrnun á grænmetinu sem verður í versluninni. Það gerist ekki með erlenda grænmetið. Aðrir bera þá rýrnun. Það er afar mikilvægt fyrir neytandann og fyrir matvælaeftirlitið að upprunamerkingar séu til staðar. Það hefur gefist vel hvað varðar kjúklingaframleiðsluna og við eigum að taka þetta upp í auknum mæli. Evrópusambandið hefur neytendavæna stefnu í þessum efnum. Það er sú stefna sem við eigum að fylgja. Við flytjum inn gífurlega mikið magn af vörum frá Bandaríkjunum. Þar kemur ekkert fram hvort um erfðabreytta matvöru sé að ræða. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að taka á því.