Meginreglur umhverfisréttar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:20:53 (4607)

2002-02-13 20:20:53# 127. lþ. 77.25 fundur 450. mál: #A meginreglur umhverfisréttar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:20]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Við hæstv. umhvrh. höfum rætt hér áður úr þessum stóli um meginreglur umhverfisréttar. Á 125. löggjafarþingi ræddum við um varúðarregluna í fyrirspurnatíma og hafa mér verið afar hugleiknar þessar meginreglur umhverfisréttar æ síðan og jafnvel fyrir þann tíma. Þannig er mál með vexti að á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992, var samþykkt yfirlýsing, svokölluð Ríó-yfirlýsing, sem hefur að geyma ákveðnar reglur sem hafa verið að mótast á seinni árum og áratugum og hafa verið að ná fótfestu á alþjóðavettvangi. Þessar reglur eru svokölluð varúðarregla, mengunarbótaregla, regla um verndarsjónarmið og regla um að mengun sé upprætt við upptök. Hv. umhvn. Alþingis hefur gert þessum reglum hátt undir höfði og hefur tekið fram í vinnu sinni við frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum sem samþykkt var á Alþingi árið 2000, að þessar reglur skuli vera í fullu gildi þegar umhverfisáhrif framkvæmda eru metin.

Þegar maður fer að kynna sér þessi mál, herra forseti, kemur í ljós að í tvígang hefur verið lagt fram frv. hér á hinu háa Alþingi þess efnis að það beri að lögfesta formlega þessar meginreglur umhverfisréttar. Í fyrra skiptið var slíkt mál lagt fram á 117. löggjafarþingi. Það var í tíð hæstv. fyrrv. umhvrh., Össurar Skarphéðinssonar. Síðara málið var lagt fram á 122. löggjafarþingi og þá af hæstv. fyrrv. umhvrh., Guðmundi Bjarnasyni. Það mál er að mínu mati afar vel unnið enda samið eftir að nefnd eða starfshópur hafði fjallað um málið. Málið er að finna á þskj. 1339 og er nr. 704 frá árinu 1998. Hæstv. fyrrv. umhvrh. talaði reyndar aldrei fyrir þessu máli þannig að ekki er hægt að fara í röksemdafærslu hans fyrir því að öðru leyti en því sem hægt er að lesa út úr greinargerð með frv. sem er afar góð.

Ég er mjög hrifin af þessu máli. Ég held að það væri þarft verk að lögfesta meginreglur umhverfisréttar á þeim nótum sem lagt var til í þessu þingskjali sem ég hef hér fjallað um. Ég spyr þess vegna hæstv. umhvrh., Siv Friðleifsdóttur:

Hvers vegna hefur frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar, sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi af þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundi Bjarnasyni, ekki verið endurflutt?