Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:32:28 (4612)

2002-02-14 10:32:28# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í rúm 40 ár hefur Múlalundur verið vinnustaður öryrkja og hafa 40--50 manns unnið þar að jafnaði. Þær fréttir hafa nú borist að svo geti farið að öllum starfsmönnum Múlalundar verði að óbreyttu sagt upp frá og með 1. mars nk.

Í samræmi við 7. gr. laga um hópuppsagnir var vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins tilkynnt í lok síðasta mánaðar um fyrirhugaða uppsögn allra 52 starfsmanna Múlalundar. Eins og fram hefur komið hefur rekstur þessa verndaða vinnustaðar alla tíð verið mjög erfiður, og flest árin hefur verið tap sem SÍBS hefur greitt úr sjóðum sínum og af tekjum happdrættis SÍBS. Þannig hefur tap á rekstrinum verið yfir 50 millj. kr. sl. þrjú ár, þar af 30 millj. á síðasta ári, en rekstrarvandinn er sagður vera vegna mjög harðnandi samkeppni við lágvörumarkaði sem selja sambærilega vöru og Múlalundur framleiðir.

Allt frá síðasta hausti hefur hæstv. félmrh. verið kunnugt um að það stefndi í algert óefni ef stjórnvöld brygðust ekki við. Ráðherra fór því með ósannindi í fjölmiðlum nýverið þegar hann sagði að hann vissi ekki að þarna hefði verið um 30 millj. kr. rekstrarvanda að ræða á einu ári. Í bréfi sem Múlalundur sendi ráðherra 22. ágúst sl. eða fyrir tæpu hálfu ári kemur fram að búist er við að tap á rekstrinum muni nema um 30 millj. á árinu og stjórnvöld eru í bréfinu vöruð við því að Múlalundur geti ekki haldið rekstrinum áfram að óbreyttu. Ráðherranum hefur því í sex mánuði verið kunnugt um þennan alvarlega vanda og ekki enn endurnýjað við Múlalund ráðningarsamning sem rann út í árslok 1999. Það er því full ástæða til að átelja hæstv. ráðherra fyrir sinnuleysi í málefnum Múlalundar og skora á hann að bregðast strax við svo að ekki þurfi að loka þessum vinnustað fatlaðra. Með lokun er verið að brjóta lög á fötluðum.

Hæstv. félmrh. hefur skyldur samkvæmt lögum um málefni fatlaðra en þar er kveðið á um að á hverju starfssvæði skuli fötluðum standa til boða vernduð vinna á almennum vinnumarkaði. Ríkið er ekki að spara með því að skammta svo naumt í rekstur Múlalundar að hann verði knúinn til að loka. Tekjur sem ríkissjóður hefur nú af virðisaukaskatti af framleiðslu Múlalundar eru 30 millj. kr. og skatttekjur af lúsarlaunum einstaklinga sem ríkið hirðir eru um 5 millj. kr. Það er því lítil skynsemi í því að loka þessum vinnustað, ekki bara út frá vellíðan og virðingu þeirra einstaklinga sem þarna vinna heldur einnig út frá skattatapi ríkissjóðs og viðbótarbótagreiðslum úr Tryggingastofnun til þessara einstaklinga ef vinnustaðnum verður lokað.

Ég trúi því ekki, herra forseti, fyrr en á reynir að ráðherrann ætli að bera ábyrgð á því að 40 fatlaðir einstaklingar verði atvinnulausir verði vinnustaðnum lokað. Um 50 fatlaðir einstaklingar eru nú á biðlista eftir vinnu á Múlalundi og því verða um 100 fatlaðir án vinnu fari svo að loka þurfi Múlalundi. Það er líka afar sérstakt að ríkið skuli nú einungis greiða um 10 millj. kr. með sem svarar 15 fötluðum einstaklingum en stöðugildi fatlaðra á Múlalundi eru 27 og ætti Múlalundur því að fá um 18 millj. kr. með þessum einstaklingum. Rekstrarafkoman væri gjörólík ef greitt væri með öllum þessum einstaklingum.

Ég spyr ráðherra: Hver er skýringin á því að ekki er greitt í samræmi við fjölda fatlaðra einstaklinga sem vinnu hafa á Múlalundi?

Það er því alls ekki ólíklegt að Múlalundur hafi verið hlunnfarinn af ríkinu gegnum árin vegna þessa, og full ástæða er til að bera saman greiðslur til Múlalundar og annarra verndaðra vinnustaða. Ég spyr ráðherrann um það: Er einhver annar verndaður vinnustaður sem ekki fær greitt með öllum þeim fötluðu einstaklingum sem vinna þar?

Sömuleiðis er ástæða til að ætla að ekki sé gætt jafnræðis í launa- og starfskjörum á vinnu- og starfsþjálfunarstöðvum fatlaðra og er ástæða til að kanna það sérstaklega. Ég mun bera fram sérstaka fyrirspurn um það til hæstv. ráðherra.

Það er líka ástæða til að skoða hvort ekki sé rétt að ríkið yfirtaki rekstur Múlalundar og SÍBS leggi til húsnæði því það er ótækt að rekstrartapið lendi ár eftir ár á annarri starfsemi og endurhæfingu sem SÍBS hefur með höndum.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að beina fjórum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra:

1. Hvenær var félmrh. kunnugt um að það stefndi í 30 millj. kr. rekstrarvanda hjá Múlalundi vegna síðasta árs?

2. Geta starfsmenn Múlalundar verið öruggir um að ekki þurfi að koma til þeirra uppsagna sem nú blasa við?

3. Telur ráðherra að það komi til greina að ríkið yfirtaki rekstur Múlalundar?

4. Hvernig ætlar ráðherra að leysa vanda þeirra fötluðu einstaklinga sem nú eru á biðlista eftir verndaðri vinnu?