Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:37:38 (4613)

2002-02-14 10:37:38# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Múlalundur er elsti og stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu. Starfsemi Múlalundar hófst 1959. Í fyrstu störfuðu þar berklasjúklingar sem komu af sjúkrastofnunum á vinnustaðnum en í dag starfar þar fólk sem vegna sjúkdóma, slysa eða fötlunar hefur skerta starfsgetu. Stofnkostnaður Múlalundar, húsnæði og vélakostur, er fjármagnaður með framlögum úr happdrætti SÍBS. Á Múlalundi starfa 55 öryrkjar í 27--30 heilsdagsstörfum.

Á árinu 1997 sótti stjórn SÍBS um leyfi félmrn. fyrir Múlalund til að starfa sem verndaður vinnustaður samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Jafnframt fór SÍBS fram á gerð þjónustusamnings um starfsemina. Fram til ársins 1998 var Múlalundur rekinn án rekstrarframlaga frá ríkinu.

Árið 1998 gerðu ráðuneytið og svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra í Reykjavík samning við SÍBS um störf fyrir 15 fatlaða í skilningi laga um málefni fatlaðra, þ.e. gerðu samning um að 15 skjólstæðingar svæðisskrifstofu málefna fatlaðra fengju vinnu á vinnustaðnum. Þessi samningur gilti árin 1998 og 1999 og voru greiddar vegna samningsins 8,3 millj. á ári. Það skal tekið fram að samningurinn leiddi ekki til fjölgunar starfa fatlaðra á Múlalundi. Hann fól á hinn bóginn í sér að ríkið greiddi Múlalundi sama framlag á starf fatlaðs starfsmanns og aðrir verndaðir vinnustaðir í eigu samtaka fatlaðra fengu greitt, t.d. vinnustaðir Öryrkjabandalagsins.

Á árinu 2000 fór ráðuneytið fram á að samningurinn yrði framlengdur út árið 2001. Forsvarsmenn Múlalundar féllust ekki á það heldur gerðu kröfu til þess að ríkið greiddi fyrir fleiri en þau 15 störf sem samningurinn gerði ráð fyrir. Þrátt fyrir að enginn samningur hafi verið í gildi á árunum 2000 og 2001 greiddu ráðuneytið og svæðisskrifstofan framlög til staðarins vegna þessara 15 starfa samkvæmt eldri samningi. Á árinu 2000 voru greiddar 8,5 millj. og 8,9 millj. árið 2001 eða tæpar 600 þús. kr. með hverju þessara 15 starfa.

Milli ráðuneytis og svæðisskrifstofu Reykjavíkur annars vegar og Múlalundar hins vegar hefur verið ágreiningur um hve mörg störf ríkinu beri að greiða. Þó að allir starfsmenn Múlalundar sem eru í verndaðri vinnu eða starfshæfingu búi við skerta starfsgetu er sú skerðing starfsgetu ekki eingöngu til komin vegna fötlunar í skilningi laganna um málefni fatlaðra. Aðrar ástæður koma einnig til. Starfsmenn Múlalundar hafa því ekki allir sótt um þjónustu hjá svæðisskrifstofu Reykjavíkur eða Reykjaness en það er sannarlega greitt vegna þeirra sem óskað hafa eftir þjónustu svæðisskrifstofanna.

Í fjárlögum árins 2002 eru ætlaðar 10,2 millj. vegna starfa fatlaðra á Múlalundi. Það er á hinn bóginn áhyggjuefni, herra forseti, að þó að ríkið greiddi með öllum störfum öryrkja á Múlalundi er ljóst að rekstur staðarins er kominn í ógöngur. Kostnaður við hvert starf var á síðasta ári 1,1--1,3 millj. sem er 100% hærri fjárhæð en greidd var með störfum á sambærilegum vinnustöðum. Af þessari ástæðu var talið nauðsynlegt að láta fara fram úttekt á rekstri og starfsháttum Múlalundar. Sú úttekt stendur yfir og er niðurstaðna að vænta síðar í þessum mánuði. Vonandi tekst að tryggja áframhaldandi rekstur þessa vinnustaðar. Það skal ekki standa neitt upp á félmrn. í þeim efnum ef skynsamlegar forsendur fyrir rekstri hans finnast. Fleiri þurfa þó að koma að málinu og má nefna Tryggingastofnun ríkisins sem hefur ákveðnar skyldur varðandi starfsendurhæfingu öryrkja og e.t.v. gætu einnig komið að því máli Reykjavíkurborg, sem stundum hefur styrkt þennan vinnustað, og Vinnumálastofnun.

Ég sé að tími minn er útrunninn svo ég verð að láta það bíða seinni ræðu að svara formlega þeim beinu spurningum sem hv. þm. beindi til mín.