Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:45:24 (4615)

2002-02-14 10:45:24# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér eru til umræðu nýlegar uppsagnir á Múlalundi. Eins og fram hefur komið er Múlalundur einn elsti og stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu. Í upphafi störfuðu þar berklasjúklingar sem komu af sjúkrastofnunum á vinnustaðinn en í dag starfar þar fólk sem vegna sjúkdóma, slysa eða fötlunar hefur skerta starfsgetu.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra gerðu félmrn. og svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík samning árið 1998 við SÍBS um 15 störf fyrir fatlaða, samkvæmt skilningi laga um málefni fatlaðra, í starfshæfingu og verndaðri vinnu á Múlalundi.

Herra forseti. Í fjárlögum ársins 2002 eru ætlaðar 10,2 millj. vegna fatlaðra á Múlalundi. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni að þó að ríkið greiddi með öllum störfum öryrkja á Múlalundi er ljóst að rekstur staðarins er kominn í ógöngur. Kostnaðurinn á hvert starf þar síðasta ár var um 100% hærri á hvert starf en greitt var með störfum á sambærilegum vinnustöðum. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að láta fara fram úttekt á rekstri og starfsháttum Múlalundar. Ég vona að það takist að tryggja áframhaldandi rekstur vinnustaðarins.

Á síðasta þingi var lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir í tengslum við frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt því áttu atvinnumál fatlaðra að færast til Vinnumálastofnunar en iðja og hæfing skyldi færast til félagsþjónustu sveitarfélaga. Að sjálfsögðu eiga atvinnumál fatlaðra heima hjá Vinnumálastofnun og svæðismiðlunum með sama hætti og atvinnumál annarra manna. Þeir eiga að sjálfsögðu að hafa sama rétt og aðrir í atvinnuleit og í vinnumiðlun.