Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:24:09 (4624)

2002-02-14 11:24:09# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú skortir mjög alla sundurgreiningu á þjóðhagslegum útreikningum með þessu frv. Ég vil spyrja: Er að vænta viðbótarskýrslu um þetta efni, t.d. um hvaða áhrif þetta muni hafa á skuldastöðu þjóðarbúsins? Þetta skortir í fylgigögnum frv. og er mjög ófullkomið.

Þá er ekki fjallað um arðsemisútreikninga fyrir virkjunarframkvæmdirnar sem hljóta að skipta höfuðmáli. Ekki er greint frá raforkusamningum við hugsanlega kaupendur eða á hvaða forsendum þeir yrðu reistir. Ég vil fá að vita hvort Alþingi muni ekki fá upplýsingar um þetta og á hvaða forsendum þessir samningar koma til með að hvíla áður en ætlast er til að gengið verði til atkvæðagreiðslu um frv.

Þá kom fram að eftir að umhvrh. hafði kveðið upp úrskurð sinn í desember sl. lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að kostnaður við svokallaðar mótvægisaðgerðir yrði ekki borinn af hugsanlegum orkukaupanda. Ég spyr: Verður það skattborgarinn, verður það ríkissjóður eða verður það hinn almenni raforkukaupandi sem kemur til með að bera þennan kostnað?