Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:41:04 (4644)

2002-02-14 11:41:04# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að byrja ræðu mína á þeirri spurningu sem ég varpaði fram áðan til hæstv. iðnrh. Ég vísaði til þess að í úrskurði hæstv. umhvrh. um Kárahnjúkavirkjun kemur fram að hæstv. umhvrh. fyrir hönd framkvæmdarvaldsins er sammála því sjónarmiði sem kom fram í kæru Náttúruverndarsamtaka Austurlands um að við mat á umhverfisáhrifum beri ekki að vega saman neikvæð áhrif á umhverfið annars vegar og efnahagslegan ávinning hins vegar.

Skelfing þætti mér gott, herra forseti, ef hæstv. iðnrh. vildi hlusta á mig. Þá yrði kannski ekki hinn sami misskilningur og þegar hún hlustaði ekki á spurningu mína áðan.

Herra forseti. Ég vísa til þess að í greinargerð með úrskurði hæstv. umhvrh. kemur fram að það eigi að vera tiltekin verkaskipting á milli skipulags- og umhverfisyfirvalda annars vegar og leyfisveitanda hins vegar og þar er talið eðlilegt að mat á þjóðhagslegum áhrifum framkvæmdar sé í höndum leyfisveitanda en ekki skipulags- og umhverfisyfirvalda.

Herra forseti. Eins og ég skil frv. sem hér liggur fyrir og við erum að ræða þá er leyfisveitandi skv. 2. gr. hæstv. iðnrh. Það er þess vegna samkvæmt úrskurði framkvæmdarvaldsins hlutverk hæstv. iðnrh. að reyna að greina og leggja fram mat á þjóðhagslegum áhrifum framkvæmdar og vega það á vogarskálum andspænis þeirri röskun sem verður á náttúrufari. Ég er þeirrar skoðunar að ef þetta er ekki regla þá sé aldrei hægt að taka neina afstöðu til slíkra framkvæmda. Allar framkvæmdir af mannsins höndum hafa einhver áhrif á náttúruna og við þurfum að vega og meta hvaða ávinningur er af þeim. Ef þau rök eru ekki fyrir hendi er ákaflega erfitt að heimila slíka röskun. Þetta finnst mér vanta, herra forseti, og ég vildi gjarnan fá að vita hvernig hæstv. ráðherra telur að þingið eigi að meta þetta og hvort hæstv. ráðherra sé þá annarrar skoðunar en kemur fram af hálfu framkvæmdarvaldsins í úrskurði hæstv. umhvrh.

Herra forseti. Sú umræða sem við fer fram hérna er um ákaflega umdeilt mál. Hún er um Kárahnjúkavirkjun. Aðdragandi þeirrar umræðu var deilan mikla sem stóð um Eyjabakka á sínum tíma. Það er alveg ljóst að það voru miklar umræður og mikil andstaða gegn Eyjabakkavirkjun. Ég held að það sé ekki ofmælt að það er líka mikil andstaða við Kárahnjúkavirkjun. Í mínum flokki, Samfylkingunni, er t.d. alveg ljóst að þar er fólk sem er mjög sterklega með því að virkjað verði við Kárahnjúka. Þar er líka fólk sem er mjög sterklega á móti því og vill frekar að þar verði settur þjóðgarður. En það eru líka ákaflega margir í þingflokki Samfylkingarinnar og innan Samfylkingarinnar sem eru þeirrar skoðunar að þetta tvennt geti farið saman.

Herra forseti. Ég rifja upp að í umræðunni um Eyjabakka var það m.a. sá sem hér stendur, formaður Samfylkingarinnar, sem benti á að hægt væri að þyrma Eyjabökkum með því að ráðast í virkjun við Kárahnjúka. Ég vil rifja það upp, herra forseti, að ég taldi þá að sameiginleg virkjun Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Brú um Kárahnjúkalón fæli í sér mun minni fórnarkostnað en fælist í missi Eyjabakka. Ég orðaði það svo þá, herra forseti, að hún væri illskásti kosturinn ef á annað borð yrði virkjað norðan Vatnajökuls. Ég er enn þeirrar skoðunar, herra forseti. Ég tel að af þessu tvennu sé alveg ljóst að fórnarkostnaðurinn er minni við Kárahnjúkavirkjun en við Eyjabakkavirkjun.

[11:45]

Þegar þetta mál kom til kasta skipulagsyfirvalda endaði það með, eins og menn muna, að Skipulagsstofnun felldi úrskurð 1. ágúst árið 2001. Sá úrskurður var neikvæður. Stofnunin taldi að allt of mikill vafi léki á afleiðingum þessarar virkjunar, gögn væru of óljós til þess að hún gæti tekið jákvætt í málið. Ég var algjörlega sammála því mati, herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að fara örlítið yfir það sem mér þótti vera meginniðurstaða í úrskurði Skipulagsstofnunar á þeim tíma vegna þess að sá úrskurður og framvindan í kjölfar hans ræður miklu um afstöðu manna eins og mín og margra þingmanna, m.a. innan Samfylkingarinnar.

Átta atriði þóttu mér merkilegust við úrskurð Skipulagsstofnunar. Í fyrsta lagi að þar kom fram að stofnunin taldi að framlagðar upplýsingar um framkvæmdina væru ekki nægjanlegar til þess að unnt væri að segja fyrir um umfang þeirra. Í öðru lagi taldi stofnunin ljósa annmarka vera á þeim upplýsingum sem þó voru lagðar fram. Í þriðja lagi taldi stofnunin að þessi skortur á upplýsingum og annmarkar á þeim gerðu það að verkum að matið sem sérfræðingar legðu á framkvæmdina á grundvelli þessara upplýsinga kynni að vanáætla afleiðingarnar.

Í fjórða lagi sagði í úrskurði stofnunarinnar að líklegt væri að framkvæmdirnar hefðu, og ég vitna beint, með leyfi forseta:

,,... í för með sér veruleg neikvæð umhverfisáhrif. Sérstaklega varðar það fyrri áfanga virkjunarinnar og þá sérstaklega Hálslón og veitu Jökulsár á Dal til Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts.``

Í fimmta lagi segir að þessi neikvæðu umhverfisáhrif birtist í því að það sé líklegt að þessar framkvæmdir hafi varanleg neikvæð áhrif vegna jarðvegsrofs og áfoks á víðfeðm svæði austan Jökulsár á Dal.

Í sjötta lagi segir að matsskýrsla Landsvirkjunar hefði átt að gefa skýrari og ítarlegri mynd af líklegum áhrifum Hálslóns á jarðvegsrof og áfok.

Í sjöunda lagi segir að mat á áhrifum Hálslóns á jarðvegsrof og áfok sé lykilþáttur sem vegi þungt í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

Og í áttunda lagi segir Skipulagsstofnun að hún telji, og ég vitna beint, með leyfi forseta:

,,... að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um mótvægisaðgerðir ... til þess að hægt sé að leggja dóm á hvort þær séu raunhæfar, æskilegar eða líklegar til að bera tilætlaðan árangur.``

Það kemur sem sagt fram í úrskurði Skipulagsstofnunar að lykilþáttur í úrskurði hennar sé skortur á upplýsingum um umfang og áhrif foks af Hálslóni. Það er alveg ljóst, herra forseti.

Á þessum tímapunkti taldi stofnunin að mat hennar gæti ekki orðið annað en neikvætt vegna þess að hún var að láta náttúruna njóta vafans og ég tel að það hafi verið hárrétt af stofnuninni. Mat stofnunarinnar hvíldi á nýsamþykktum lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Lítil reynsla var á því. Ég tók lítillega þátt í því að fjalla um það í umhvn. og það er alveg ljóst, herra forseti, eins og ég skildi þá umfjöllun, að þá voru menn ekki þeirrar skoðunar að þegar mati Skipulagsstofnunar væri lokið væri hægt að koma með nýjar upplýsingar og í reynd fara í nýtt mat.

Í kjölfar þessa úrskurðar gerðist það hins vegar að prófessor við Háskóla Íslands lagði fram þá skoðun sína að leyfilegt væri að bæta við nýjum upplýsingum. Hann skírskotaði til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaganna og hann var þeirrar skoðunar og gaf umhvrh. þau ráð að henni bæri að taka til skoðunar ný gögn um fyrirhugaða framkvæmd og áhrif framkvæmdarinnar. Það fylgdi þessu að ef þessi gögn fjölluðu einungis um áhrif, fælu einungis í sér minni háttar breytingar á áformum framkvæmdaraðila eða tillögur um nýjar mótvægisaðgerðir, þá teldi hann að ekki þyrfti að senda málið til nýrrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Þetta er lykilatriði, herra forseti. Á þessu stigi var sem sagt heimilað að koma með nýjar upplýsingar inn í málið.

Nú er það umdeilanlegt eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur reifað hér í umræðum um þingmál sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram og rætt var í útvarpsumræðum á dögunum. Hún telur og ýmsir þingmenn, m.a. innan Samfylkingarinnar, að það sé umdeilanlegt hvort þetta samrýmist lögunum. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræður um það, herra forseti. Vel kann að vera að látið verði á það reyna fyrir dómstólum. En í öllu falli er alveg ljóst að á grundvelli þessa heimilaði umhvrh. framlagningu nýrra gagna, lét það jafnframt í eins konar kæruferli, þ.e. almenningi og stofnunum gafst kostur á að segja álit sitt á því og ýmsum stofnunum, þar á meðal Skipulagsstofnun, voru send þau gögn sem fram komu til þess að gefa álit sitt á þeim.

Ráðuneytisstjóri í umhvrn. túlkaði þetta svo í fjölmiðlum aftur og aftur sem hér væri í reynd um eins konar framhaldsmat að ræða, notaði jafnvel orðin ,,nýtt mat á umhverfisáhrifum``. Nú er það auðvitað svo að það þarf að taka af allan vafa um hvort þetta samrýmist lögunum. Það kann vel að vera að breyta þurfi lögunum til þess að skýra þetta betur.

Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, að þau gögn sem þarna komu fram sýndu svo að ekki verður um villst í fyrsta lagi hvert yrði umfang þessa foks og afleiðingar þess á þann hátt að ég a.m.k. tel að það sé þokkalega upplýst.

Í öðru lagi komu líka fram upplýsingar um mótvægisaðgerðir. Þær voru þrenns konar, herra forseti. Þær sem mestu máli skipti mætti kalla verkfræðilegar mótvægisaðgerðir. Þá ber í fyrsta lagi að velta því fyrir sér hvort hægt sé að líta svo á að slíkar aðgerðir séu raunhæfar. Ekki er ég sérfræðingur í því, herra forseti, en ég vísa til þess að í áliti Líffræðistofnunar um þessi nýju gögn kemur fram í texta sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor ritar fyrir hönd stofnunarinnar að einu raunhæfu aðgerðirnar gegn foki af þessu tagi séu verkfræðilegar. Niðurstaða mín er því sú að sérfræðingur á þessu sviði telji að verkfræðilegar mótvægisaðgerðir séu raunhæfar.

Herra forseti. Þessum aðgerðum er síðan lýst í hinum nýju gögnum þannig að þar er um að ræða átta mismunandi útfærslur. Í fyrsta lagi að reistur verður varnargarður. Þar er gerð tillaga um meðhöndlun rofabarða, gerð tillaga um sandgildrur, um dælingu jarðvegs og þar er t.d. tekið sérstaklega fram og reifað að af hálfu ráðuneytisins sé hér um raunhæfa mótvægisaðgerð að ræða og vísað á gögn sem benda til þess að óvissa um virkni þessarar aðgerðar sé lítil. Sömuleiðis eru til sand- og siltgirðingar og bent á að þetta séu þekktar mótvægisaðgerðir sem mikið er beitt til þess að stöðva sandfok. Vökvun og rykbinding er annað. Þó bendir ráðuneytið í úrskurði sínum á, og það er mikilvægt, að ekki sé hægt að beita því nema að tilteknu marki og vakin er sérstök eftirtekt á því af hálfu ráðuneytisins að þrátt fyrir það sé hætta á að töluvert mistur myndist frá lónstæðinu við ákveðin veðurskilyrði.

Ýmislegt fleira er þarna nefnt og eitt vil ég sérstaklega vekja eftirtekt á, þ.e. aðferð við að forgangsraða fyllingu lóna, vegna þess að þegar ég fór yfir þau gögn sem þessu tengdust þá varð það niðurstaða mín að þetta mundi leiða til þess að rof og fok mundi geta minnkað um kannski fjórðung og allt upp í þriðjung og það skiptir verulega miklu máli, herra forseti.

Þegar upp er staðið blasir við að niðurstaða umhvrh. var að heimila þessa framkvæmd með 20 skilyrðum. Flest þeirra eru tiltölulega léttvæg að mínu viti, en þrjú skilyrði skipta langmestu máli.

Í fyrsta lagi eru það þær mótvægisaðgerðir sem ég hef farið hér yfir. Ég vil að það sé algjörlega skýrt af minni hálfu að ég tel að þær séu raunhæfar og ég tel að sú vinna sé vönduð af ráðuneytisins hálfu. Ég tek það líka fram að ég er ekki einn um þá skoðun heldur hef ég eftir föngum reynt að leita mér sérfræðilegrar ráðgjafar um það.

Herra forseti. Í öðru lagi er yfirfalli Desjarárstíflu breytt þannig að hún er tekin niður í Hafrahvammagljúfur. Þetta er framkvæmd sem skiptir töluverðu máli fyrir Desjarárdalinn og það sérkennilega lífríki sem þar er að finna.

Í þriðja lagi sem skiptir kannski mestu máli er að sú takmörkun kom fram í úrskurði umhvrh. að ekki verður ráðist í nokkrar af smærri veitunum sem búið var að sáldra umhverfis Snæfell.

Það kom glöggt fram í úrskurði Skipulagsstofnunar að það var einmitt skortur á upplýsingum um umfang og afleiðingar þessara virkjana sem áttu nokkurn þátt í afstöðu skipulagsyfirvalda. Ég tel þess vegna, herra forseti, að allar þessar aðgerðir séu þess eðlis að þær dragi stórlega úr þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem eru af virkjuninni. Eftir sem áður er alveg ljóst að lónið er til staðar. Ég ímynda mér að það sé það sem menn taka afstöðu til.

Ég er þeirrar skoðunar og við í Samfylkingunni, obbi Samfylkingarinnar, að ekki sé hægt að útiloka að menn ráðist í virkjun við Kárahnjúka á grundvelli þeirrar skipulagstillögu sem nú liggur fyrir í þessu frv.

Hins vegar þarf þrennt að liggja fyrir, herra forseti. Það þarf að vera alveg skýrt að gripið verði til þjóðhagslegra mótvægisaðgerða sem duga til þess að koma í veg fyrir að hagkerfið fari úr böndum. Bent er á það í fylgiskjali sem fylgir frv. og gert er af Þjóðhagsstofnun að það kunni að vera að verðbólgumarkmið náist ekki ef ekki verður gripið til ákveðinna þjóðhagslegra mótvægisaðgerða og bent er á að þensla gæti aukist og ýmsir varnaglar eru slegnir þar. Þetta er mál sem verður að skoða ákaflega vel, herra forseti.

Í öðru lagi þarf að vera alveg ljóst að sú framkvæmd sem hér er verið að ráðast í skili skýrum og ótvíræðum efnahagslegum ávinningi. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni í andsvari hans hérna áðan að ekki er hægt að lesa þetta með ótvíræðum hætti út úr skjalinu. Ég velti fyrir mér af hverju það stafi, herra forseti. Nú er það svo að leynd hvílir yfir raforkuverðinu með einhverjum hætti. Við í þessum sölum fáum alla vega ekki að lesa það. Mér finnst alls ekki hægt að Alþingi afgreiði þetta með neinu móti frá sér án þess að raforkuverðið verði kynnt á einhverjum vettvangi þingsins. Ég vísa til þess að iðnn. fær frv. til umfjöllunar. Nú veit ég ekki hvernig framkvæmdarvaldið treystir nefndum þingsins en ég er þeirrar skoðunar að það sé af og frá að hægt verði að afgreiða þetta mál nema a.m.k. iðnn. og eftir atvikum efh.- og viðskn. líka séu kynntir þeir útreikningar sem liggja þarna að baki. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Mun það ekki verða gert á einhverju stigi málsins?

Herra forseti. Í þriðja lagi þarf að liggja fyrir hvernig land norðan Vatnajökuls verður nýtt í framtíðinni. Það sem ég á við, herra forseti, er auðvitað sú staðreynd að það er alveg ljóst þegar maður les þetta þingskjal sem hér liggur fyrir --- þá er ég kannski að vísa sérstaklega til fylgiskjals sem kemur frá Orkustofnun --- að enn eru uppi stórfelldar hugmyndir um virkjunaráform norðan Vatnajökuls. Í fylgiskjalinu sem kemur frá Orkustofnun er rætt fimm sinnum um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Ég þori ekki að fullyrða hvernig landið liggur í þeim efnum hér í þinginu en eitt er alveg ljóst að Samfylkingin mun aldrei fallast á að Dettifoss verði með beinum eða óbeinum hætti virkjaður. Við höfum þess vegna verið að skoða hugmyndir um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem yrði í reynd viðbót við Vatnajökulsþjóðgarðinn sem búið er að samþykkja, þar sem tekið yrði inn flæmi upp á 4.500 km2. Þar innan er að finna sjö til átta staði sem eru nefndir sem virkjunarkostir í fylgiskjali Orkustofnunar. Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að það er alveg ljóst að menn munu ekki láta af áformum um að ganga frekar á þær mikilvægu perlur sem þarna er að finna. Þess vegna tel ég að það væri lágmark af hálfu framkvæmdarvaldsins að fallast á með einhverju móti að þessi miklu flæmi, þessar miklu perlur, undur íslenskrar náttúru, yrðu teknar undir þjóðgarð og þar með verndaðar um aldur og ævi.

Herra forseti. Ég vil segja það hér að ég fagna því að í ræðu hæstv. umhvrh. í umræðu um daginn komu fram ýmsir kostir sem hún hafði kynnt ríkisstjórninni, m.a. sá kostur að framlengja Vatnajökulsþjóðgarðinn á þann veg sem ég er að ræða og ég tel það nauðsynlegt. Ég tel að menn verði að ræða þá hugmynd ítarlega og af yfirvegun. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé ákaflega mikilvægt á þessum tímamótum sem við stöndum á núna þegar við blasir hver niðurstaðan verður, m.a. vegna þess að framkvæmdarvaldið hefur lýst afstöðu sinni og hefur meiri hluta í þinginu, hvaða afstöðu það hefur til landnýtingar þarna að öðru leyti. Ég ítreka það aftur að fjölmargir virkjunarkostir eru nefndir af hálfu Orkustofnunar. Þjóðgarður sem næði t.d. norður fyrir Herðubreiðarfriðland mundi tryggja að ekki væri hægt að ráðast í Kreppu og Jökulsá á Fjöllum með þeim hætti sem fyrirhugað er til þess að búa til Arnardalslón og þar með yrði í reynd vatnasvið Jökulsár á Fjöllum friðað.