Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:22:13 (4657)

2002-02-14 12:22:13# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu stærsta mál sem Alþingi fær til afgreiðslu á þessu þingi ef að líkum lætur. Frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar lýtur að nýtingu náttúruauðlinda til að byggja upp öflugt atvinnulíf á Austurlandi og snúa byggðaþróun í þeim landshluta til betri vegar, en þar hefur fólki fækkað stanslaust á undanförnum árum.

Raforkuþörf vegna væntanlegs álvers í Reyðarfirði er áætluð 3.850 gígavattstundir á ári vegna fyrri áfanga og 2.000 gígavattstundir á ári vegna síðari áfanga. Þessari raforkuþörf verður mætt þannig að vegna fyrri áfanga álversins verður reistur fyrri áfangi Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. virkjun Jökulsár á Brú með gerð Hálslóns og einnig Fljótsdalslínum 3 og 4. Síðari áfanga álversins verður mætt með síðari áfanga Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. virkjun Jökulsár í Fljótsdal ásamt Hraunaveitu, byggingu Bjarnarflagsvirkjunar, stækkun Kröfluvirkjunar og Kröflulínu 3.

Í framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun verður ráðist á grundvelli úrskurðar umhvrh. frá 20. des. sl. þar sem fallist er á framkvæmdina með 20 skilyrðum. Þessi skilyrði þýða að orkugeta virkjunarinnar minnkar um 210 gígavattstundir á ári frá því sem fyrirhugað var og því er nauðsynlegt að rýmka heimildir til stækkunar Kröfluvirkjunar.

Um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Austurlandi hafa verið nokkrar deilur og er skemmst að minnast umræðna um Fljótsdalsvirkjun á Alþingi. Ýmsir virðast þeirrar skoðunar að yfir höfuð eigi ekki að ráðast í virkjunarframkvæmdir í þessum landshluta og gildir þá einu hvort talað er um Fljótsdalsvirkjun eða Kárahnjúkavirkjun. Ég er ósammála þessu og tel að við eigum að nýta auðlindir okkar, hvort heldur er til lands eða sjávar, innan skynsamlegra marka. Það er ein meginforsenda fyrir því að efla atvinnulífið á Austurlandi og auka fjölbreytni þess, en eins og fram hefur komið í könnunum er einhæfni atvinnulífsins meginástæða þess að fólk flytur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði mun hafa gríðarlega mikil og jákvæð samfélagsleg áhrif og skapa allt að eitt þúsund ný störf á Austurlandi við virkjunina, álverið og margháttaða þjónustu sem fylgja mun þessari starfsemi.

Fróðlegt er að kynna sér umsagnir ýmissa aðila um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og áhrif þeirra og eðlilegt að vitna í þessar umsagnir við þessa umræðu. Í umsögn Orkustofnunar frá því fyrr í þessum mánuði segir um kostnaðar- og rekstraráætlun Kárahnjúkavirkjunar, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga um Landsvirkjun mega [samningar um orkusölu til stóriðju] ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið. Með hliðsjón af þessu og í samræmi við ákvæði 11. gr. orkulaga hefur Orkustofnun kynnt sér útreikninga Landsvirkjunar á kostnaði við ráðgerða Kárahnjúkavirkjun og rekstraráætlun hennar.

Kárahnjúkavirkjun er sérstök virkjun hérlendis að því leytinu að hún er alfarið reist til að afla orku til eins stórkaupanda. Í samræmi við framgreint lagaákvæði verður því markmiðið með orkusölunni að vera það eitt að viðhalda og helst bæta hag fyrirtækisins.

Öllum slíkum verkefnum fylgir áhætta. Því er mikilvægt að aðferðafræði við hagkvæmnismatið taki tillit til áhættuþátta og hugsanlegra breytinga á forsendum um leið og mat sé lagt á líkindi allra breytinga. Af þessum sökum hefur Orkustofnun kynnt sér sérstaklega hvernig Landsvirkjun stendur að verki í þeim efnum. Stofnunin telur aðferðafræðina vandaða og ítarlega og því séu allar forsendur fyrir hendi til þess að niðurstaða Landsvirkjunar um það hvort í verkefnið skuli ráðist byggi á traustum grunni og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við tilvitnað lagákvæði.``

Þjóðhagsstofnun sendi í síðasta mánuði frá sér umsögn um þjóðhagsleg áhrif Noral-verkefnisins miðað við að fyrri áfangi Reyðaráls með 260 þús. tonna framleiðslugetu komist í gagnið árið 2002 og hinn síðari, 130 þús. tonn, árið 2012. Miðað er við að álvers- og virkjunarframkvæmdir standi yfir á tímabilinu 2002--2013, framkvæmdir standi sem hæst á árunum 2004--2006 en 60--65% af heildarfjárfestingu verkefnisins eigi sér stað á því tímabili. Annar framkvæmdaþáttur verði á árunum 2010 og 2011 eða sem nemur ríflega 20% af heildarfjárfestingu.

Meðal helstu niðurstaðna Þjóðhagsstofnunar má nefna að vinnuaflsnotkun í framkvæmdum verði að jafnaði rétt innan við 1/2% af heildarframboði vinnuafls. Mest verði vinnuaflseftirspurnin árið 2005 og gæti hún þá numið um 11/4% af vinnuaflsframboði. Eftir að framkvæmdum lýkur og álverið hefur náð fullum afköstum megi búast við að áhrif á viðskiptajöfnuð verði jákvæð. Miðað við óbreytt raungengi gæti útflutningur orðið um 14% meiri en annars fyrstu áratugina eftir lok framkvæmda.

Þá segir Þjóðhagsstofnun m.a. um áhrif Noral-verkefnisins á helstu hagstærðir, með leyfi forseta:

,,Þjóðhagsstofnun áætlar að árlegur hagvöxtur verði um 11/2 prósentustigi meiri á árunum 2004--2005 en í grunndæmi og lands- og þjóðarframleiðsla verði hátt í 4% hærri en í grunndæmi þegar munurinn er mestur árið 2005. Vinnuaflsnotkun í framkvæmdum á sama ári er áætluð um 11/4% af heildarvinnuaflsframboði. Ekki er óvarlegt að ætla að áhrif framkvæmda til minnkunar atvinnuleysis verði 3/4 prósentustig þegar þær standa sem hæst en í þessari athugun er gert ráð fyrir að um 20% af vinnuafli í framkvæmdum komi til landsins gagngert í þeim tilgangi að vinna við þær.

Þegar litið er yfir framkvæmdatímabilið í heild sinni, þ.e. árin 2002--2013, má reikna með að árlegur hagvöxtur verði um 0,3 prósentustigum meiri að jafnaði en í grunndæmi. Áætlað er að þjóðarframleiðsla verði að meðaltali rúmlega 11/2% hærri og landsframleiðsla ríflega 2% hærri á framkvæmdatíma en í grunndæmi. Áhrif verkefnisins á hagvöxt, framleiðslustig og aðrar hagstærðir eru nokkuð mismunandi eftir árum ...``

Nýsir og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sendu nýlega frá sér yfirlit um áhrif Noral-verkefnisins á samfélag á Miðausturlandi. Þetta yfirlit er mjög fróðlegt og sýnir glögglega hversu gífurlega þýðingu þetta verkefni hefur fyrir svæðið. Í þessu yfirliti kemur margt athyglisvert fram. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Veigamestu langtímaáhrifin verða á svæði sem í daglegu tali er nefnt Miðausturland en innan þess svæðis getur fólk með góðu móti sótt vinnu í væntanlegt álver eftir að rekstur þess hefst. Á meðan á framkvæmdum stendur mun áhrifa hins vegar gæta að nokkru um allt Austurland og Norðurland eystra.

Áhrifa Noral-verkefnisins mun gæta mjög víða í samfélaginu en þó er ljóst að tiltekin svið samfélagsins munu verða fyrir áhrifum umfram önnur. Þessi áhrif eru háð nálægð við verkefnið í tvennum skilningi: Annars vegar eru áhrifin merkjanleg vegna landfræðilegrar nálægðar. Þessi áhrif skapast til dæmis vegna umsvifa á framkvæmdasvæðum/vinnustöðum, vegna flutnings á varningi og ferða starfsfólks til og frá vinnu. Hins vegar er um að ræða félagslega nálægð þar sem tilteknir aðilar eru í miklum samskiptum við framkvæmdaaðilana/fyrirtækin eða jafnvel beinir þátttakendur í verkefninu. Einkum verður unnt að merkja áhrif á eftirfarandi svið samfélagsins: Mannfjölda, efnahag, vinnumarkað, sveitarfélög, húsnæðismál, almenna þjónustu, opinbera þjónustu, ferðaþjónustu og á samfélag og lífsstíl fólks almennt.``

[12:30]

Það kemur enn fremur fram í þessu yfirliti Nýsis og Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri að 1. desember 2001 voru um 11.800 íbúar skráðir til heimilis á Austurlandi öllu og hafði þá aðeins fjölgað um 3.300 alla 20. öld. Á sama tíma þrefaldaðist hins vegar íbúafjöldi á landinu öllu. Sé litið til síðustu þriggja áratuga hefur orðið hægfara fólksfækkun á Austurlandi. Tímabilið 1971--1979 var vaxtarskeið og íbúum fjölgaði um 10%. Áratuginn þar á eftir, 1979--1990, tók við tímabil stöðnunar og íbúum fjölgaði mjög hægt eða aðeins um 1,5%. Frá 1990 hefur íbúum á Austurlandi hins vegar fækkað um nálega 1% á ári eða samtals um rúmlega 10%.

Það kemur líka fram í þessari skýrslu Nýsis og Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri að engin verkefni séu í sjónmáli á Austurlandi sem jafnist á við Noral-verkefnið hvað stærð eða áhrif varðar. Verði ekkert af verkefninu bendir margt til þess að fólki fækki áfram á Austurlandi og enn frekari stöðnunar/samdráttar gæti í atvinnulífinu þar. Sé tekið mið af íbúaþróun undangenginna ára, segir í þessari skýrslu, má búast við að íbúum á Austurlandi fækki um ríflega 2 þús. frá því sem nú er og til ársins 2010.

Þá segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi reynslu undanfarinna ára verður þó að telja ólíklegt að íbúaþróun á Austurlandi snúist við á komandi árum nema fjölbreytni náms og starfsmöguleika aukist og þjónustuþættir samfélagsins styrkist. Atvinnulíf á Austurlandi byggist enn að langstærstum hluta á landbúnaði og sjávarútvegi. Störfum í þessum atvinnugreinum hefur fækkað mikið undanfarna áratugi og fyrirsjáanlegt er að þeim muni fækka enn frekar á komandi árum.``

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Vegna framkvæmdanna en þó fyrst og fremst vegna reksturs álversins er gert ráð fyrir nokkurri íbúafjölgun á Austurlandi. Þar verður um að ræða allt í senn fólk sem fætt er á Austurlandi, Austfirðinga sem flytja aftur á heimaslóðir og svo fólk sem fætt er annars staðar en á Austurlandi. Fjölgunin verður fyrirsjáanlega á tveimur vaxtarsvæðum, það er að segja á Héraði og í Fjarðabyggð. Þörf fyrir nýtt íbúðarhúsnæði er talin nema allt að 1.300 íbúðum á tímabili sem nær frá árinu 2002 til og með ársins 2013 eða rúmlega 100 íbúðum á ári. Til að byggja þessar íbúðir þarf að vinna rúmlega 1.800 ársverk eða um 150 að meðaltali á ári.``

Í þessari skýrslu er talað um þau störf sem til verða með þessu verkefni ef af verður, að um 610 ársverk verði í álverinu þegar það er fullbyggt og að fyrir hvert starf í álverinu muni skapast um 0,65 afleidd störf á Austurlandi eða um 400 störf. Eins og ég nefndi fyrr þá verður þarna um að ræða um 1.000 ný störf á Austurlandi þegar þessar framkvæmdir hafa átt sér stað.

Það kemur fram að ef miðað er við íbúaþróun síðustu ára megi búast við að íbúum á Miðausturlandi fækki um 300 á fimm til sex ára tímabili. Sé hins vegar litið til áhrifa Noral-verkefnisins megi búast við að íbúum svæðisins fjölgi og að þeir verði um 2.400--2.500 fleiri en ef ekkert verður að gert.

Einnig er bent á að álver á Íslandi greiði hærri laun en aðrar sambærilegar starfsstéttir fá að sjómönnum undanskildum. Hér er líka listi yfir þá menntun sem væntanlegir starfsmenn álversins þurfa að búa yfir. Um 6% væntanlegra starfsmanna verða í störfum sem ekki krefjast neinnar sérþekkingar, þ.e. ófaglært verkafólk. 72% starfa krefjast sérstaks iðn- eða fjölbrautanáms og störf sem krefjast tæknimenntunar eru 13%, störf sem krefjast tæknimenntunar á háskólastigi 5% og 4% starfanna verða störf sem krefjast akademískrar háskólamenntunar.

Margt kemur fram í þessari skýrslu, m.a. áhrif á samgöngur, ferðamennsku og slíkt og bent er á að að virkjunin muni breyta aðgengi ferðamanna að tilteknum svæðum, vegir muni batna og svæði sem áður voru aðskilin tengjast saman. Þessi áhrif koma að hluta til fram á framkvæmdatímanum en eru að sjálfsögðu til frambúðar.

Úttekt Nýsis og Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri lýkur á samantekt um áhrif Noral-verkefnisins í hnotskurn. Það er athyglisverð lesning og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þann kafla:

,,Fyrirhugaðar virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi munu með beinum, óbeinum og afleiddum hætti leiða til mikillar atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta á Miðausturlandi. Með Noral-verkefninu verður til ný atvinnugrein á svæðinu sem hafa mun jákvæð áhrif á margar aðrar atvinnugreinar er átt geta viðskipti við álverið og starfsfólk þess. Noral-verkefnið mun hafa áhrif á ferðamannaþjónustu og landbúnað. Í fyrra tilvikinu mun aukinn íbúafjöldi, viðskipti tengd framkvæmdum, bættar samgöngur og bættur hagur fólks auka eftirspurn eftir margvíslegri hótel- og veitingaþjónustu, útivist og afþreyingu sem aðilar í ferðaþjónustu njóta góðs af. Atvinna tengd álverinu mun einnig auka möguleika fólks sem starfar í ferðaþjónustu og landbúnaði á viðbótartekjum en atvinna í þessum tveimur greinum gefur almennt lágar tekjur og er árstíðabundin.

Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar að rekja til þess að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum. Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Skoðanakönnunin sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Reyðarál hf. sýnir að 40% 18--28 ára fólks á Miðausturlandi hefur örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverinu og að 17% brottfluttra Austfirðinga 25--49 ára telur líklegt að þeir muni flytja aftur til Austurlands ef álver rís á Reyðarfirði.

Fyrirhugað álver og tengd starfsemi mun leiða til samgöngubóta, bættrar grunngerðar og aukinnar þjónustu, til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins. Bætt afkoma fólks og fjölgun íbúa mun leiða til öflugra menningar- og félagslífs á svæðinu og styrkja starfsemi stofnana, samtaka, félaga og hópa sem starfa á þessu sviði.

Ef verkefnið verður framkvæmt eins og áformað er mun verða til samfélag á Miðausturlandi sem byggir afkomu sína á tveimur meginstoðum, það er álframleiðslu og sjávarútvegi. Mikilvægast er hins vegar að verkefnið mun leiða til þess að samfélag sem nú einkennist af stöðnun og samdrætti í atvinnulífi mun eiga þess kost að breytast í samfélag uppgangs og athafnasemi.``

Það er líka ástæða til að minna á skýrslu sem bæjarstjórinn á Akranesi hefur sent frá sér um áhrif stóriðju á Akranes, hvernig hin mikla uppbygging á Grundartanga hefur haft áhrif á nágrenni sitt. Það er athyglisverð lesning og sýnir að sú starfsemi hefur haft afskaplega jákvæð áhrif á mörgum sviðum, ekki síst hvað varðar íbúaþróun sem var snúið úr fækkun í fjölgun. Umhverfismál eru þar til mikillar fyrirmyndar. Þessi fyrirtæki eru í mikilli sátt við umhverfi sitt og eru til fyrirmyndar í öllum samskiptum við nágrenni sitt. Þetta er mjög fróðleg skýrsla og athyglisverð. Þótt hún kannski tengist ekki beint virkjuninni fyrir austan er ég að ræða um þau áhrif sem þessi virkjun mun hafa á samfélagið á Austurlandi því mér finnst það skipta meginmáli í sambandi við umræður um þessa fyrirhuguðu virkjun hvernig hún mun virka á umhverfi sitt. Kannanir sem hafa verið gerðar eru mjög athyglisverðar og sýna eindreginn stuðning á Austurlandi við þessar fyrirhuguðu virkjunarframkvæmdir og álverið. Það skiptir auðvitað miklu máli að heimamenn séu bærilega sáttir við þær framkvæmdir.

Ég held að þessar umsagnir sem ég vitnaði í sýni glöggt hversu gífurlega þýðingu Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði munu hafa á samfélagið á Austurlandi. Ég tel því fulla ástæðu til að fagna þessu frv. og vona að af þeim framkvæmdum sem hér er lagt til að verði farið í verði sem allra fyrst.