Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:41:06 (4658)

2002-02-14 12:41:06# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnaði í upphafi máls síns í umsögn Orkustofnunar sérstaklega þar sem fram kemur að Kárahnjúkavirkjun sé sérstök að því leyti að hún er alfarið reist til að afla raforku til eins fyrirtækis.

Einnig kemur fram í þessari umsögn að um er að ræða áhættufjárfestingu, en Orkustofnun er sannfærð um að vinnubrögð Landsvirkjunar séu mjög fagleg. Allt þetta tíundaði hv. þm. En hann sleppti einni setningu þar sem fram kemur að Orkustofnun líti ekki á það sem sitt hlutverk að meta arðsemina, en um hana snýst heila málið. Hv. þm. benti okkur réttilega á að við værum að fjalla um stærstu fjárfestingu Íslandssögunnar. Ef við getum ekki fjallað um þessa grundvallarforsendu, arðsemina sem hagfræðingar eru að deila um --- margir telja að sú forsenda sé ekki fyrir hendi --- er þá hægt að ætlast til þess að Alþingi taki afstöðu til málsins áður en þeir grunnþættir liggja fyrir? Er hægt að ræða þessi mál af nokkru viti hér nema þessar grundvallarforsendur um arðsemi þessara framkvæmda liggi fyrir?