Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:42:42 (4659)

2002-02-14 12:42:42# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:42]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Því hefur verið marglýst yfir bæði af ríkisstjórn og eigendum Landsvirkjunar að í þessar framkvæmdir verði ekki farið nema arðsemi sé fyrir hendi. Það hefur verið margítrekað á Alþingi. Að sjálfsögðu verður farið yfir þessa þætti í vinnu iðnn. þegar hún fer að vinna að þessu frv., vonandi í næstu viku. Þá verður það auðvitað eitt af því sem menn munu fara yfir, þ.e. arðsemin.

Ég ítreka að því hefur verið marglýst yfir af öllum sem um þetta mál fjalla, ríkisstjórn, eigendum Landsvirkjunar og öllum aðilum að í þessar framkvæmdir verði ekki ráðist nema arðsemi sé fyrir hendi. Ég taldi ástæðu til að benda á það sem Orkustofnun sagði í umsögn sinni, að hún telur að allar forsendur séu fyrir hendi til að niðurstaða Landsvirkjunar um hvort í verkefnið skuli ráðist byggist á traustum grunni og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við lagaákvæðið. Auðvitað verður ekki ráðist í þessar framkvæmdir nema við séum sannfærð um að arðsemi sé fyrir hendi. Því getur hv. þm. treyst.