Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:45:55 (4661)

2002-02-14 12:45:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. segir að við séum að taka afstöðu til málsins vek ég athygli á því að þetta mál er hér til 1. umr. og hv. þm. veit auðvitað hvernig mál ganga fyrir sig í þinginu. Þau eru tekin til 1. umr. Síðan fara þau til nefnda. Þar er málið krufið til mergjar og farið yfir allar forsendur. Auðvitað verður það gert í þessu máli eins og öllum öðrum. Ég held að það sé ekki vaninn hér við 1. umr. að þylja allar slíkar forsendur í smáatriðum. Það er gert í starfi nefndarinnar. Síðan kemur málið inn í þingið aftur til 2. umr. og þá taka menn afstöðu.

Ég er hins vegar alveg sannfærður af því sem ég hef kynnt mér þetta mál --- ég ætla ekki að vitna í slík samtöl hér --- ég er alveg sannfærður um að þetta er hið besta mál og á eftir að verða að veruleika.

Málið fer sem sagt til iðnn. Iðnn. bíður mikið verkefni við að skoða þetta mál og mun gera það að sjálfsögðu af mikilli samviskusemi eins og önnur mál.

Af því að hv. þm. nefndi að ég væri að lesa upp úr álitsgerðum þá er það alveg rétt að ég tek mark á áliti Orkustofnunar, áliti Þjóðhagsstofnunar og áliti Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri og Nýsis. Þetta er mjög gott innlegg í málið og í þessum álitsgerðum kemur fram hversu gríðarlega miklu þessi framkvæmd skiptir fyrir samfélagið á Austurlandi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að við höfum pólitíska afstöðu til stóriðjumála. Við erum ekki sammála þar, ég og hv. þm. Hann hefur allt aðrar skoðanir en ég á þeim málum. Ég virði skoðanir hans og hann vonandi mínar. Við höfum á undanförnum mánuðum og árum verið ósammála um þessi mál og ég býst við að það verði ekki mikil breyting á því.