Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:47:55 (4662)

2002-02-14 12:47:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:47]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Hjá hv. þm. kom fram að frv. væri ætlað að treysta byggð á Austurlandi og að málið í heild fengi víðfeðman stuðning frá heimamönnum. Ég get bætt því við að það fær mikinn stuðning frá mörgum sveitarstjórnarmönnum og sérstaklega í Fjarðabyggð.

Ég spyr á móti: Hvað eiga heimamenn og sveitarstjórnarmenn að gera í þeirri stöðu sem þeir búa við í dag? Hvert er valið? Hver er byggðastefna núverandi ríkisstjórnar? Hvernig á að treysta hinar dreifðu byggðir? Hvernig á að treysta byggð á Vestfjörðum, á Austurlandi? Við höfum fengið kynningu í gegnum netið á fyrirhugaðri tillögu að byggða\-áætlun. Ég sé ekki í fljótu bragði að í þeirri byggðaáætlun sé stórhuga uppbygging á Austurlandi. Það vísar allt til þessara stórframkvæmda sem eiga að vera mesta innlegg allra tíma í styrkingu byggðar. Ég spyr: Hvernig má búast við því að íbúar svæðis eins og Austurlands þar sem íbúafækkunin hefur verið gífurleg á undanförnum árum, og á Vestfjörðum, bregðist öðruvísi við en að taka undir það eina sem á að gera? Er nokkuð annað í boði? Ég lýsi eftir byggðastefnu hæstv. ríkisstjórnar.