Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 13:31:50 (4666)

2002-02-14 13:31:50# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fjótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þetta frv. miðar að því að leggja grunn að stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar. Hér er um að ræða að virkja Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal upp á 750 megavött til þess að standa straum af raforkuframleiðslu fyrir álver í Reyðarfirði.

En það er alveg ljóst, virðulegi forseti, og ég vil hefja mál mitt á því, að þessi virkjun er ekki nægjanleg fyrir þetta verkefni. Fyrir heildarverkefnið vantar um 100 megavött sem þarf að sækja annað og þess vegna er hnýtt aftan í þetta frv. til laga heimild til að stækka Kröfluvirkjun um allt að 220 megavött. Við erum að tala um stærstu fjárfestingu Íslandssögunnar og inn í þetta frv. vantar í raun og veru allt sem þetta verkefni þarf að byggja á. Hér er frv. lagt þannig upp að verkefnið er tekið sem einstök eining án þess að menn fari í heildstætt mat á því hvert við erum að stefna í raforkuframleiðslu í landinu, hvaða möguleikar eru o.s.frv. Það er t.d. alveg ljóst að í Þingeyjarsýslum hafa menn litið vonaraugum til möguleika á orkuframleiðslu á því svæði, t.d. í Bjarnarflagi, á Kröflusvæðinu, á Þeistareykjasvæðinu og jafnvel í Kelduhverfi til að framleiða orku sem yrði grunnur að atvinnuuppbyggingu á því svæði, að vísu í miklu minni mæli en hér er talað um.

Núna er lagt upp með það að orku verði aflað á þessu svæði með tilheyrandi línulögnum austur á land því að enn vantar, eins og ég sagði áðan, um 100 megavött til að dæmið geti gengið upp með Kárahnjúkavirkjun einni til að mata álverið í Reyðarfirði. Þetta er umhugsunarefni vegna þess, eins og ég sagði, að menn töldu á hinum svæðunum að þeir ættu gríðarlega möguleika til einhvers konar atvinnuuppbyggingar sem þyrfti á mikilli orku að halda, heima og nær sér. Á þessum svæðum, t.d. í Blöndudal og Húnavatnssýslum, hafa menn slæma reynslu af slíku eins og þegar Blönduvirkjun var virkjuð upp á 150 megavött. Hún gagnast héraðinu sáralítið vegna þess að orkan er send til þess að bræða ál annars staðar, suður á land, og verður til sáralítillar atvinnusköpunar í Húnavatnssýslum eins og menn höfðu þó bundið vonir við. Þess vegna vil ég draga þetta fram, það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur. Við megum ekki taka eitt dæmi út fyrir sviga og vaða áfram í áformum okkar um uppbyggingu á álbræðslum án þess að hafa heildarmynd af því hvert við ætlum að stefna.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt allt kapp á að sett verði upp rammaáætlun fyrir hugsanlega raforkuframleiðslu í landinu með vatnsafli og jarðvarma þannig að við gætum tekið á þessum málum heildstætt en ekki eins og lagt er til í frv. Það er í raun og veru lagt upp eins og hvert annað einkafyrirtæki óháð því sem við erum kjörin til að standa vörð um, óháð samfélagslegum áhrifum. Ég held að þar standi hnífurinn í kúnni, menn hafi ekki sést fyrir í þessu máli.

Það sem vantar í frv. er öll undirbygging varðandi hagfræðileg áhrif. Þau hafa hvergi verið sett fram og menn vita ekkert hvar þeir standa varðandi hagfræðileg áhrif þessara framkvæmda. Við höfum ekkert fengið í hendurnar sem sýnir hvernig virkjunin á að renta sig og við höfum ekkert fengið í hendurnar um heildaráhrif á samfélagið hvað varðar t.d. þenslu, verðbólgu og þess háttar. Aðeins er lagt upp með áætlanir eða spár um hvað þetta geti aukið hagvöxt og þjóðarframleiðslu. Hagfræðileg áhrif eins og t.d. að standa að mótaðgerðum vegna þessarar innspýtingar á fjármagni liggja ekki fyrir þó að margsinnis hafi verið beðið um þau gögn í þinginu. Engin áætlun liggur fyrir um hvar þurfi að draga úr opinberum framkvæmdum í landinu á þessu sjö ára tímabili á móti ef við eigum ekki að missa allt efnahagslega úr böndunum. Það hlýtur að verða grundvöllur að ákvarðanatöku um svona verkefni að menn viti hvar þeir standa í því efni.

Staða Rariks og staða orkuöflunar, framleiðslu og dreifingar í landinu er á sama hátt engan veginn sett í samhengi við þetta verkefni. Nú vitum við að Rarik kaupir raforku af Landsvirkjun, u.þ.b. 93% af því sem Rafmagnsveitur ríkisins þurfa til að standa straum af orkudreifingu um hinar dreifðu byggðir, og við höfum ekki fengið nokkurt yfirlit yfir væntanlega stöðu Rariks í framhaldi af svona ákvarðanatöku. Menn höfðu bundið vonir við og til eru skýrslur þar að lútandi að ef Landsvirkjun byggði upp miðað við aukningu og þörf í landinu, miðað við venjulega iðnaðaruppbyggingu o.s.frv., gæti Landsvirkjun orðið skuldlaus á næstu 16 árum. Það leiðir hugann að því að ef ekki er farið út í svona stórkostlegar framkvæmdir, stórkostlega uppbyggingu, hvar liggur ávinningurinn t.d. úti í samfélaginu af lækkun á raforkuverði vegna afskrifta á skuldum Landsvirkjunar sem þá gæti farið að selja rafmagnið á lægra verði inn á allan okkar iðnað og allt okkar heimilishald? Við höfum ekkert fengið um svona þrátt fyrir að um það hafi verið beðið.

Auðvitað væri það stórkostlegur hagvaxtarauki ef Landsvirkjun gæti á næstu 16 árum afskrifað skuldir sínar og lækkað raforkuverðið verulega til allra neytenda í þessu landi og þar með alls iðnaðar landsmanna. Þetta er uppgjör sem verður að fara fram og þetta verður að skoða í heildarsamhengi við það. Þetta frv. byggir á því að Landsvirkjun geri þetta. Þetta eru því opinberar framkvæmdir þó að stjórn yfir fyrirtækinu sé sjálfstæð. Það liggur alveg fyrir að ríkið á 50% í Landsvirkjun og Akureyrarbær og Reykjavík eiga restina þannig að það eru opinberir aðilar sem hér eru að fara í framkvæmdir. Fyrir bara þremur árum var ævinlega talað um að Kárahnjúkavirkjun eða virkjanir fyrir austan yrðu sjálfstæð fyrirtæki utan við þá orkuframleiðslu sem er í landinu þannig að stofnað yrði hlutafélag um orkuöflun fyrir hugsanlegt álver á Reyðarfirði og það hefði á engan hátt áhrif á það sem gerðist í raforkukerfinu annars staðar í landinu. Með því fyrirkomulagi eygðu menn möguleikana á að afskrift af skuldum Landsvirkjunar mundi í framtíðinni leiða til þess að orkuverð yrði lægra til notenda hér innan lands, bæði til iðnaðarins og heimilisnota.

Miðað við núverandi upplegg, að Landsvirkjun fari í framkvæmdirnar á eigin forsendum, á eigin spýtur, sýnist mér við 1. umr. að girt sé fyrir möguleikana á því að lækka orkuverð stórkostlega til okkar fólks. Það er dapurleg staðreynd vegna þess að við þyrftum ekki einvörðungu að lækka orkuverðið til iðnaðarins og eygja möguleikana á því heldur þyrftum við einnig að skapa möguleika fyrir því að þau fyrirtæki sem nú þegar reka sig á jarðefnaeldsneyti og orkuframleiðslu á grunni jarðefnaeldsneytis færu yfir í innlenda orkugjafa. Jafnvel bara á höfuðborgarsvæðinu eru dæmi um að stór fyrirtæki séu með allt að tveggja megavatta afl til að reka sig í næsta nágrenni allra háspennulínanna sem koma inn á höfuðborgarsvæðið. Það er þessi heildarsýn sem við höfum talað fyrir hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og þess vegna teljum við svo mikilvægt að allir virkjunarmöguleikar séu kortlagðir og síðan förum við í þá vinnu að takast á um það hvernig við viljum nýta þessa orku. Í mínum huga er það engum vafa undirorpið að svona stór högg, svona stór verkefni, eru ekki sú leið sem hentar landinu okkar. Ég held að ég eigi mörg skoðanasystkini í því að þegar við tölum um hinar dreifðu byggðir horfir fólkið þar auðvitað til þess að í minna mæli og smærri verkefnum geti orkan sem er til í iðrum jarðar eða í fallvötnunum heima fyrir nýst til smærri verkefna sem eru tengd svæðunum í staðinn fyrir að fara landsvæðanna á milli, vatnasviðanna á milli, til að framleiða orku til að fóðra stóriðjuver sem er staðsett á einum stað á landinu.

Þetta er grafalvarlegur hlutur. Við erum ekki aðeins að sækja auðlindirnar landshornanna á milli heldur erum við að breyta vatnasviðum. Það er alls staðar í heiminum talin mjög alvarleg og afdrifarík ákvörðun ef menn fara að seilast yfir vatnasvið og færa eina á yfir í aðra. Af því hafa margar hörmulegar afleiðingar orðið víða um heiminn þar sem menn hafa gert slíkt.

Rammaáætlunin er grundvallaratriði en það sem maður hnýtur um í fylgiskjölum með þessu frv. er að óhuggulegt sé til þess að vita að í raun og veru er með þessu frv. búið að setja upp eins konar rammaáætlun að virkjunarmöguleikum í landinu til næstu 12 ára.

Á bls. 24 í frv. eru taldar upp 27 virkjanir eða stækkunaráfangar virkjana. Auðvitað verður að líta á þetta frá opinberum aðilum sem eins konar rammaáætlun en þetta er ekki nálægt því útrætt. Þarna inni eru hlutir sem ég hélt að væru löngu komnir út af borðinu. Þarna eru virkjunarkostir eins og stækkun á Laxá, stækkun á Kröflu sem ekki hefur komið á óvart, Búðarháls sem er í gangi, Norðlingaölduveita sem er mjög umdeild, Bjarnarflag, Reykjanes, 1. áfangi, Villinganes, Fljótsdalsvirkjun, Skaftárveita sem er mjög umdeilt mál út frá náttúruverndarsjónarmiðum, Urr\-iða\-fossvirkjun, Núps- og Búðafossvirkjun, Hellisheiði, 1. áfangi, Grændalur, Krafla, Kárahnjúkavirkjun, Þeistareykir, Hólmsá, Reykjanes, 2. áfangi, Skjálfandafljót, Hellisheiði, 2. áfangi, Markarfljót, Þeistareykir, 2. áfangi og Hellisheiði, 3. áfangi.

Þarna eru komnar upp eins og ég segi, ég held að ég hafi tíundað það, 27 virkjanir og stækkunaráfangar virkjana. Auðvitað er þetta gert á grunni þess sem ríkisstjórnin stefnir að vegna þess að við gerum okkur öll grein fyrir því að það er mikil ásókn frá stóriðjufyrirtækjum í þann mengunarkvóta sem Íslendingar hafa samið um --- undanþágurnar vegna mengunar. Þess vegna er keyrt áfram bara á grunni stóriðjuáforma. Það er alveg augljóst í þessu plaggi hvernig þetta er sett upp.

[13:45]

Virðulegi forseti. Við erum andvíg þessum vinnubrögðum. Við viljum sjá að hér sé byggður upp iðnaður sem er í minni skala og hentar okkar samfélagi. Stórkostleg uppbygging af þessu tagi, fjárfesting Íslandssögunnar með öllum þeim hliðarafleiðingum sem hún framkallar, hentar ekki Íslandi að okkar mati í dag. Við munum kalla eftir því í nefndinni --- ég sit í hv. iðnn. --- ég mun leggja mig fram um að kalla fram nauðsynlegar upplýsingar: Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir raforkuframleiðsluna og dreifinguna eins og hún er í dag? Hvaða afleiðingar hefur þetta t.d. hvað varðar nýja tilskipun Evrópusambandsins um orkuöflun, orkudreifingu og ný orkulög? Hvaða afleiðingar hefur þetta á móti núverandi möguleika, að við afskrifum Landsvirkjun á 16 árum og lækkum orkuverðið til fyrirtækjanna okkar? Það er grundvallaratriði. Sú staðreynd að afskriftirnir gætu átt sér stað á 16 árum og veruleg lækkun gæti orðið á raforkuverði til þess iðnaðar sem nú þegar er starfræktur í landinu, ég tala ekki um til heimilanna, gæti aldeilis framkallað hagvöxt og bætt kjör allra, ekki bara í einum landsfjórðungi.

Það er ekkert launungarmál að allur okkar iðnaður, sérstaklega hann, biður um lækkað orkuverð. Loðnubræðsla úti á landi þarf að greiða 5--8 kr. á kílóvattstundina vegna iðnaðar síns. Hversu mikla innspýtingu í efnahagskerfið á hinum ýmsu póstum gætum við ekki séð ef þessi afskrift Landsvirkjunar og lækkað orkuverð stæðu landsmönnum til boða? Það er svo augljóst að þetta er valkostur sem verður að skoða mjög alvarlega í stöðunni.

Kárahnjúkavirkjun með álbræðsluverkefninu á Reyðarfirði byggir, eins og þetta er sett upp, á hefðbundinni áframhaldandi uppbyggingu sem leiðir ekki til lækkunar á orkuverði til almennings í næstu framtíð. Það gefur augaleið gagnstætt því sem Jóhann Hafstein forsrh. sagði á sínum tíma þegar áform voru um að byggja fyrsta áfanga Búrfellsvirkjunar og álbræðsluna í Straumsvík. Þá sáu menn fram á að með því að byggja þarna upp og fara í þessa stóriðju gætu landsmenn á allra næstu árum vænst þess að fá jafnvel ókeypis rafmagn inn á heimilin og í iðnað landsmanna þegar afskrift virkjunarinnar hefði átt sér stað. Þannig hugsuðu menn þá. En augljóslega ætla menn að halda áfram að samtengja framleiðslu Landsvirkjunar, Landsvirkjun sem fyrirtæki og Íslendinga alla inn á þetta kerfi þannig að hægt verði að selja orkuna ódýrt inn í þetta stóra fyrirtæki. Engin gögn hafa komið fram um að þetta sé hagkvæmasta leiðin fyrir okkur Íslendinga hvað varðar uppbyggingu og stuðning við iðnaðinn. Engin gögn. Það hefur nefnilega ekki verið farið ofan í þetta á þeim nótum.

Virðulegi forseti. Við krefjumst þess að þessi vinna verði framkvæmd. Við krefjumst þess að farið verði í rammaáætlunina, taldir upp virkjunarkostir, tekin ákvörðun um hvað við viljum friða núna. Það gengur ekki að menn séu hvað eftir annað að fara í plöggum inn í og gera áætlanir um eitthvað sem ekki er búið að taka ákvörðun um, eins og listinn yfir virkjunarkostina og stækkunarmöguleikana sýnir augljóslega. Enn hefur ekkert verið tekist á um hvaða möguleika menn vilja setja algerlega út af borðinu.

Menn eru svo kokhraustir hér að það er farið að tala um virkjun Dettifoss sem ég hélt að væri algjör samstaða um að virkja ekki. Hvað er þá langt í að farið verði að tala um að virkja Gullfoss? Ég hélt að menn stæðu algjörlega saman, og held enn, um að hann yrði ekki virkjaður. En hvað með Skaftá? Það er mjög umdeilt mál. Skaftá er á listanum.

Hvernig ætla menn að vinna þetta? Ætla áhugasamir menn um uppbyggingu á álbræðslu, sem sagt stjórnarmeirihlutinn, að segja þegar næsti möguleiki á slíkri bræðslu birtist: Skítt með allt mat, umhverfismálin skipta engu máli? Þeir vilja koma, þeir vilja orku og við verðum að sinna þeim. --- Svona finnst manni vinnubrögðin vera.

Virðulegi forseti. Svona vinnubrögð ganga ekki. Það eru aðrir möguleikar í stöðunni og útreikningar sem byggja á þessum grunni, um þetta fyrirtæki, um hagvöxt, útflutningstekjur o.s.frv., byggja á mati á þessu eina dæmi en enginn þarf að ímynda sér að landsmenn leggi árar í bát. Ef þetta verður ekki gera þeir væntanlega eitthvað annað. Það sýnir sagan og þá verður hagvöxtur þar líka.