Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 13:53:44 (4668)

2002-02-14 13:53:44# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á stefnu ríkisstjórnarinnar að nýta orkulindirnar sem næst upptökum sínum. Ég held að því sé þveröfugt farið. Á ekki að fara milli landsvæða til að ná í orkuna og er ekki farið milli landshluta? Blönduvirkjun fóðrar Hvalfjörð.

Nokkur orð um að gefa sér vitlausar forsendur. Ég er t.d. með tölur um Rarik sem eru í öllum gögnum. Rarik framleiðir ekki nema 7% af orku sinni, kaupir yfir 90% af Landsvirkjun tiltölulega háu verði, 3,20 kr. Það gefur augaleið að ef Landsvirkjun væri í stakk búin og stefndi að því að afskrifa skuldir sínar og lækka orkuverðið verulega mundi það nýtast öllum. Það er svo augljóst.

Rarik selur allri landsbyggðinni rafmagnið mjög dýrt vegna þess í hvernig stöðu Rarik er. Ég er ansi hræddur um að það hafi verið pólitísk ákvörðun hvernig þetta rafmagnsveitukerfi var sett upp vegna þess að Landsvirkjun er náttúrlega stofnuð til að fóðra stóriðju. Þess vegna var á sínum tíma mjög nauðsynlegt að Landsvirkjun fengi eins mikið af raforkuframleiðslutækjunum og hægt var og þess vegna er Rarik meira og minna skilið eftir framleiðslutækjalaust, þ.e. hefur engin orkuver. Um þetta allt má deila, þ.e. hvernig á að fara í þessi mál. En þetta er gert til þess að fóðra stóriðju og nota afskrifaðar virkjanir til að ganga inn í púkkið. En afleiðingin er ótvírætt sú að fyrir allan almenning, sérstaklega á svæðum Rariks, hefur þetta orðið mjög dýrt. Það skiptir milljörðum. Það er augljóst mál og kemur fram í öllum gögnum Rafmagnsveitna ríkisins.