Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 13:55:55 (4669)

2002-02-14 13:55:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara ekki rétt sem hv. þm. heldur hér fram, að það sé vegna stóriðjunnar sem raforkuverð í landinu er þetta eða hitt. Þetta eru fullyrðignar sem á ekki að bera hér fram.

En í sambandi við Rarik almennt veit hv. þm. að við erum að fara inn í nýtt kerfi í raforkugeiranum þar sem vinnsla á raforku verður frjáls. Ég geri ráð fyrir því að Rarik muni spreyta sig í því nýja umhverfi og reyndar hefur Rarik uppi áform um ákveðnar framkvæmdir á þessu sviði.

Hv. þm. talaði í fyrri ræðu sinni líka um mikil áhrif á efnahaginn sem væri neikvæður fyrst og fremst og þar fram eftir götunum. Það liggur alveg fyrir og það kemur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar að mest áhrif verða árin 2005 og 2006 og viðskiptahalli þá 7,5--8%. Það kemur líka fram að árið 2020 verður erlend skuldastaða svipað hlutfall af landsframleiðslu og eins og ekki hefði verið farið út í þetta verkefni. Það kemur líka fram að verðbólga verði 4--5% við hámark framkvæmda án mótvægisaðgerða miðað við að 2,5% verðbólga sé hvort sem er. Það er því ekki verið að fara í neinar felur með að þetta hefur áhrif á efnahag okkar á þeim tíma sem framkvæmdir standa sem hæst en við því verður brugðist og þannig er það bara í lífinu. Það þýðir ekki að þora ekki út í stórframkvæmdir vegna þess að menn óttist að það geti haft þessi eða hin áhrifin.

Auðvitað fáum við leiðbeiningar og útreikninga hjá okkar færustu mönnum á öllum þessum hlutum og þegar það allt er skoðað í þaula sjáum við að framkvæmdin í heild sinni er hagstæð fyrir íslenskt efnahagslíf.