Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:00:25 (4671)

2002-02-14 14:00:25# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Lítið frv. og stutt um eitt stærsta mál og örugglega stærsta framkvæmdamál Íslandssögunnar. Ég sakna þess að engar forsendur eða skilyrði eru Landsvirkjun sett í þessu frv. Þetta er galopin heimild til handa Landsvirkjun að ráðast í þessar framkvæmdir. Þar er ekki að finna neinn fyrirvara um arðsemi þessarar heljarvirkjunar. Og ekki er einu sinni sett í þetta frv. fyrirvari um að framkvæmdaaðili fari að úrskurði umhvrh., enda sjáum við fyrstu viðbrögð á þeim bæ, þar sem Landsvirkjun lýsir því yfir að þeir muni ekki borga þann kostnað sem af úrskurðinum hlýst. Ég er ekki spámannlega vaxinn en ég ætla samt að spá því að ef núv. stjórnvöld verða við lýði þegar þar að kemur og allt verður komið í fullan gang og ekki aftur snúið, þá muni hefjast afskriftir á þeim athugasemdum sem umhvrh. hefur sett fram. Þeir munu bera fram hér breytingartillögur um að þær falli niður o.s.frv.

Ég verð að segja að það þarf ekki að fara mörgum orðum svo sem um umhverfismálin í þessu sambandi vegna þess að þau mega heita að því leyti liðin tíð að málið hefur gengið sinn lögboðna feril. Það var mjög eðlilegt að mínum dómi að Skipulagsstofnun skyldi úrskurða virkjunarframkvæmdir frá. Hlutverk hennar er slíkt að það hlaut að vera í hlutarins eðli að það yrði niðurstaða hennar.

Ég verð að segja að mér fannst að vissu leyti og mörgu leyti umhvrh. bregðast snöfurlega við í úrskurði sínum. Ég átti helst von á því að hún yrði svínbeygð undir pólitískan vilja eins og aðrir í þessu máli og Landsvirkjun ekki undantalin. En mér sýndist hún reisa makka og setja þarna ýmis verðmæt skilyrði. Að vísu kostar það mikið fé og enginn ætlar að borga það. Það er ekki að spyrja að því.

En ég má til með að vitna örstutt í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar, með leyfi forseta, enda þótt, eins og ég segi, umhverfismálin séu að baki eins og mál standa. Þar segir svo:

,,Að mati Skipulagsstofnunar hefur ekki verið sýnt fram á að ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu áhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa á náttúrufar og landnotkun.``

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Ekki liggur hins vegar fyrir hvert orkuverð til álvers í Reyðarfirði verður, en Landsvirkjun fullyrðir að framkvæmdin verði arðsöm. Að sama skapi hafa ekki verið lagðar fram upplýsingar um arðsemi virkjunarinnar og áhrif framkvæmdarinnar á efnahag og samfélag ef orkan yrði seld til annarra nota, en eins og fram kemur í matsskýrslu Landsvirkjunar er virkjunin lögð fram til mats á umhverfisáhrifum óháð markaðssetningu orkunnar og því hvort áform um byggingu álvers í Reyðarfirði ganga eftir.``

Lítum nú á umsögn Orkustofnunar í þessu sambandi. Hún hefur heldur enga hugmynd um arðsemi þessarar virkjunar og þessara framkvæmda. Á bls. 17 í áliti Orkustofnunar segir svo, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga um Landsvirkjun mega samningar um orkusölu til stóriðju ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.``

Ég veit betur og þar af leiðandi betur en hæstv. iðnrh. hvernig sagan sannar það alveg frá upphafi að hinn almenni neytandi hefur borgað niður orkuna til stóriðjunnar. Ég veit að hæstv. iðnrh. er ekki að segja þetta viljandi ósatt. Hún þarf bara að kynna sér staðreyndir málsins. Við gerðum það með opin augu með Ísal. Við vorum kúguð af Norðmönnum með svívirðilegum hætti í sambandi við járnblendið. Og fyrir tveimur árum eða svo sömdum við enn af okkur við Norðurál. Hinn almenni íslenski neytandi, fyrirtæki og einstaklingar, halda því áfram að borga þetta niður.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þessu og í samræmi við ákvæði 11. gr. orkulaga hefur Orkustofnun kynnt sér útreikninga Landsvirkjunar á kostnaði við ráðgerða Kárahnjúkavirkjun og rekstraráætlun hennar.``

Hvar hafa þeir komist í þær upplýsingar, með leyfi?

,,Kárahnjúkavirkjun er sérstök virkjun hérlendis að því leytinu að hún er alfarið reist til að afla orku til eins stórkaupanda.``

Má ég skjóta því hér inn í að þar af leiðandi ætti nú að vera sáraeinfalt að reikna út arðsemi, því þetta dreifist ekki á marga kaupendur.

En áfram, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við framgreint lagaákvæði verður því markmiðið með orkusölunni að vera það eitt að viðhalda og helst bæta hag fyrirtækisins.

Öllum slíkum verkefnum fylgir áhætta.`` --- Þeir eru séðir menn og vel að sér á Orkustofnun. --- ,,Því er mikilvægt að aðferðfræði við hagkvæmnismatið taki tillit til áhættuþátta og hugsanlegra breytinga á forsendum um leið og mat sé lagt á líkindi allra breytinga. Af þessum sökum hefur Orkustofnun kynnt sér sérstaklega hvernig Landsvirkjun stendur að verki í þeim efnum. Stofnunin telur aðferðafræðina vandaða og ítarlega og því séu allar forsendur fyrir hendi til þess að niðurstaða Landsvirkjunar um það hvort í verkefnið skuli ráðist byggi á traustum grunni`` --- hvar er sá grunnur, með leyfi? --- ,,og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við tilvitnað lagákvæði.`` --- Þetta, að ekki megi hækka til almenningsveitna vegna stóriðjunnar. --- ,,Að öðru leyti telur Orkustofnun það ekki sitt hlutverk að meta arðsemi þessa verkefnis fyrir fyrirtækið.``

Hún mælir með framkvæmdinni í bak og fyrir en segir svo að það sé ekki sitt hlutverk. Segir að þetta sé allt á traustum grunni en veit ekkert hvað hún er að tala um af því hún getur ekki haft upplýsingar um þetta. Þetta er bara pólitísk fjarstýring á þessum herrum í þessari ríkisstofnun sem ætti að vera málefnaleg en ekki pólitísk.

Ég vil leyfa mér, forseti, aðeins að vitna til niðurstöðu Orkustofnunar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Orkustofnun telur að vandað hafi verið til útfærslu Kárahnjúkavirkjunar í hvívetna, og að í þeim efnum hafi víða verið gengið svo langt til móts við umhverfissjónarmið sem ætlast megi til án þess að stofna hagkvæmni verkefnisins í hættu.

Þá telur stofnunin að aðferðafræðilegar forsendur séu til þess að með byggingu og rekstri Kárahnjúkavirkjunar sé það sjónarmið í heiðri haft að sala á orku frá virkjuninni til Reyðaráls muni ,,ekki ... valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið``.

Svo kemur lokadómurinn, herra forseti, svohljóðandi:

,,Að öllu samanlögðu telur Orkustofnun ekki eftir neinu að bíða með að veita Landsvirkjun, með lögum, heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun.``

Þarna vantar bara ,,án allra fyrirvara``.

Ég hafði þá hugmynd fyrir margt löngu að Íslendingar ættu að standa þann veg að málum þegar þeir væru búnir að ákveða virkjunarkost að segja við álfurstana stóru: Gjörið þið svo vel. Þarna er virkjunarkosturinn. Virkið og reisið ykkar álver, en við eignumst virkjunina eftir tuttugu, þrjátíu ár eða svo.

Með því að ráðast í þessa virkjun og með því móti að eiga meiri hluta í álveri sem reist verður erum við að taka á okkur slíka áhættu að engu tali tekur og það er langt handan við það sem við getum boðið íslensku efnahagslífi.

Og við erum að fara að semja við harðsnúnustu og ágengustu samningamenn sem uppi eru og taka venjulegum gyðingum langt fram. Það fengum við að reyna fyrst í sambandi við Elkem. Þá háttaði þannig til að Íslendingar voru að flýta sér eins og vant er og þáv. orkuráðherra, Gunnar Thoroddsen, hafði vonir um að heimsfrægt fyrirtæki, Union Carbide, sem varð sér í lagi þekkt af slysum sínum í Indlandi, ætlaði að kaupa af okkur orkuna og Sigalda var virkjuð. En þeir hlupust undan merkjum, borguðu smáræðis sekt fyrir það að svíkja loforð sín eða bráðabirgðasamninga, og voru horfnir og við sátum uppi með Sigöldu og þá kom Elkem Spiegerverket í Noregi til sögunnar.

Ég er ekki viss um að ég megi fara með það orkuverð sem þar var samið um, en það er langt fyrir neðan það sem hinn íslenski almenni neytandi borgar. Og svo er enn í dag, langt fyrir neðan. Og hvað gerðu þeir fleira þessir herrar sem nú á að fara að semja við? Þeir kúguðu Íslendinga til að skrifa undir að fyrir tækniþekkingu fengju þeir 3% af allri veltu fyrirtækisins. Þetta nam fleiri hundruð millj. króna um langt árabil. Það er rétt nýlega búið að koma þessu ákvæði frá.

Þetta er reynsla okkar. Ég sagði hér áðan af viðsemjandanum nýja og menn hafa svo sem fleira um það að segja. Hingað komu fulltrúar Norsk Hydro og buðu forsvarsmönnum þáv. iðnrh., Finns Ingólfssonar, að kaupa hlutabréf í Járnblendiverksmiðjunni á genginu 1. Ráðherrann settist niður og samdi við þá enda þótt þá væru bréf Járnblendisins nærri 3. Auðvitað seldi hann þeim svo bréf fyrir 2. Og svo er sest niður með þessum herrum aftur til að semja við þá um langstærsta og örlagaríkasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir efnahagslega.

Ég sagði frá því, og það er hægt að fletta þeim staðreyndum upp, að með opnum augum borguðum við niður orkuna til Ísals því okkur þótti svo mikið hagræði í boði af þessari stórvirkjun sem við ella hefðum ekki komið í gagnið eða náð að byggja.

Ég ætla ekkert að tala um meira um Járnblendið. En það verð ég að segja að nú fyrir skemmstu var samið um að borga orkuna einnig niður fyrir Norðurál, og þá tók í hnúkana. En þetta er reynslan og þetta er staðreyndin.

Einu hljótum við líka að spyrja okkur að eftir að okkur hefur verið úthlutað töluverðum geira af eiturkökunni: Hvernig stendur á því að við bjóðum þetta ekki út, því margur mundi verða gírugur eftir að ná sneið þar? En við munum ætla að færa Norðmönnum þetta á silfurfati gefins. Og það að binda sig við einn viðsemjanda er með ólíkindum.

Í Financial Times í gær er haft eftir forstjóra Norsk Hydro að álverð sé á niðurleið og afkoma Norsk Hydro fari hríðversnandi.

Við höfum hér upplýsingar um þróun álverðs um langa hríð. Ég man að viðmiðunin á áltonninu sem hér er nefnd frá 1990 var 1.550 dollarar. Það er núna í kringum 1.300 dollarar og lægsta verðið sem við höfum séð í því sambandi eru 1.100 dollarar þannig að ekki er á vísan að róa. Hvað halda menn nú um það hvaða fyrirtæki í eigu Norsk Hydro mundu ganga fyrir að dómi allra sem til þekkja ef harðnaði illilega á dalnum í álheiminum? Ætli það yrði Reyðarál? Ætli allar þeirra verksmiðjur gengju ekki fyrir fyrst? Við Íslendingar getum aldrei haft hin minnstu áhrif á samkeppnina á þessum gríðarlega harðsnúna markaði og við megum engu til hætta. En mér er spurn: Á að neita væntanlegum fjárfestum í Reyðaráli um upplýsingar áður en þeir leggja fram sitt fé, upplýsingar um afkomuna og alla arðsemi, um orkuverð? Á að neita þeim um það? Landsvirkjun telur það skemma samkeppnishagsmuni sína að upplýsa nokkurn skapaðan hlut um þetta.

[14:15]

Svo sjáum við hér nýjan leik að tölum um framkvæmdakostnað. Það er ekki langt síðan hann átti að vera í fyrri áfanga 70 milljarðar og í síðari 20 milljarðar. Nú eru þeir komnir niður í 78 komma eitthvað milljarða og þeir eru komnir með hagkvæmnina neðar en Vatnsfellsvirkun, sem er langhagkvæmasta virkjun okkar vegna þess að þar eru engin uppistöðulón. Þar eru engin jarðgöng. Þar er rennslið virkjað úr Þórisvatni sem er langhagkvæmast. Þetta er leikur að tölum sem ekkert er að marka.

Ég ætla ekkert að fara með upplýsingar sem mér voru gefnar, af því að ég trúði þeim ekki, um hvað hver kílómetri í þessum vatnsgöngum mun kosta, en það er ekkert smáræði ef það reynist rétt sem mér hefur verið tjáð.

Hér hafa menn farið mörgum orðum um áhrif þessa þjóðhagslega og á Austurlandi. Auðvitað þarf að stemma stigu við fólksflóttanum af Austurlandi vegna þess að með fiskveiðistefnunni sem er í framkvæmd núna eru menn hraktir þaðan burtu og með miklu harðvítugri hætti en kemur til með að stöðva með þessum framkvæmdum þar eystra. Svo er lögð alveg sérstök áhersla á það af hálfu Þjóðhagsstofnunar að mjög harðsnúnar, harðar og gagngerar hagstjórnartiltektir þurfi til þess að hamla gegn þeim sveiflum sem af þessu stafa. Við höfum séð tiltektir núverandi stjórnvalda, hæstv. ríkisstjórnar, í því sambandi, hvernig þeir hafa fengist við hagstjórnarsveiflur, niðursveifluna t.d. og spennuna á verðþróunina, verðbólguþróunina. Þeir hafa ausið úr ríkissjóði á bálið. Ég hef ekki mikla trú á því að þeir nái neinum tökum, ekki þessir valdhafar, á því að snúa við þeim vandamálum sem upp kunna að rísa. En ég vil enda mál mitt á því að segja að það er alveg útilokað að ég geti, þrátt fyrir áhuga minn á þessari miklu vatnsorku þar eystra, gefið frv. atkvæði mitt á meðan það er galopið að þessu leyti.

Ég hlýt að vara við því að hið háa Alþingi taki við afgreiðslumáta upp á þessi býti. Ríkið er eigandi Landsvirkjunar og það er þýðingarlaust að halda því að okkur við afgreiðslu á máli eins og þessu að þar eigi að gilda einhver trúnaðarmál innan þessa fyrirtækis okkar. Það er bara tilbúningur að þetta skemmi eitthvað stöðu þess einokunarfyrirtækis sem þarna er rekið. Það er bara tilbúningur.

Ég hjó eftir því fyrir meira en ári að formaður Landsvirkjunar tilkynnti að orkuverðið væri ekkert vandamál í samningum við Norðmennina. Það má fletta þessu upp. Það átti ég erfitt með að skilja. En það væri betur að hægt væri að ná tökum á þessu viðfangsefni. Eins og nú standa sakir stefnir þetta í mikið óefni og meginmál væri að fá nýja viðsemjendur og meginmál er að eiga ekki krónu í þessu væntanlega álveri.