Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:20:31 (4672)

2002-02-14 14:20:31# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mér fannst athyglisverðast í ræðu hv. þm. var að hann taldi að hann hefði ekki heimild til þess að greina frá samningum um orkuverð sem gerðir voru fyrir áratugum síðan, en síðan er óskað eftir því að nú verði nákvæmlega greint frá hvernig samningsstaða er hvað varðar álverð fyrir álver á Reyðarfirði þar sem samningar eru ekki einu sinni í höfn. Mér finnst eitthvert ósamræmi þarna.

Svo finnst mér líka sérkennilegt þegar hann talar um viðsemjendur. Hann talar um reynslu sína af viðsemjendum fyrr á árum þegar hann gegndi embætti iðnrh. væntanlega og átti aðild að ríkisstjórn og sat á Alþingi, en svo virðist vera að ef viðkomandi aðilar koma frá sama þjóðríkinu þá séu þeir allir settir saman í hóp og allir sama marki brenndir. (Gripið fram í.) Mér finnst dálítið langt gengið að dæma heila þjóð eftir einhverri ákveðinni reynslu sem hv. þm. hefur. Ég ætla ekki að gera frekara veður út af því, en þetta kom mér nokkuð óvart.

Hann talar um að við eigum helst ekki að eiga neitt í þessu álveri, ef ég skildi hann rétt, og að æskilegast væri fyrir Íslendinga að útlendingar ættu það 100%. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Mér þætti samt vænt um ef hv. þm. útskýrði það aðeins frekar vegna þess að hér er um mjög arðbæran fjárfestingarkost að ræða og mér finnst skrýtið ef hann telur ekki ástæðu til þess að Íslendingar eigi í þessu arðbæra fyrirtæki.