Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:43:43 (4675)

2002-02-14 14:43:43# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mig langaði sérstaklega að gera hér að umræðuefni er það sem hv. þm. sagði um mikilvægi þess að menn vönduðu til verka. Ég er alveg sammála henni um það. Það er mjög mikilvægt í þessu stóra máli að vandað sé til verka og það vil ég fullyrða að við séum að reyna að gera í iðnrn. Reyndar vil ég halda því fram að allir sem koma að þessu Noral-verkefni leggi sig fram um að vanda sig því að þetta er stórt mál og miklu máli skiptir, bæði fyrir þjóðarhag og íbúa Austurlands, að af þessu verði.

Hv. þm. hafði nokkuð stór orð um að hér væri væntanlegt raforkulagafrv. og að hugsanlega væri þetta frv. ekki í samræmi við það frv. Nú er það í sjálfu sér ekki ljóst nákvæmlega hvernig það kemur til með að líta út þegar það kemur fram á nýjan leik. En ég held að við verðum fyrst og fremst að hafa í huga að við vinnum í samræmi við það raforkulagaumhverfi sem við lifum í í dag burt séð frá því hvernig hið væntanlega raforkulagaumhverfi kemur til með að líta út.

Ég tel mikilvægt, og vil sérstaklega ítreka það, að við Íslendingar eigum hér fyrirtæki sem heitir Landsvirkjun og hefur fulla burði til að taka að sér þetta verkefni, að fara í þessa gríðarlegu framkvæmd á Austurlandi sem er rétt, eins og hv. þm. gat um, að er mjög stórt verkefni á íslenskan mælikvarða þó að við höfum áður farið út í stórverkefni sem hafi lukkast vel.

Hv. þm. talaði um rammaáætlun og auðvitað er þar unnið mikilvægt starf. Það er í fullum gangi og það styttist í að út komi fyrsta skýrsla í því mikla verkefni sem verður þá hægt að bera saman við Kárahnjúkavirkjun. Nefndin mun að sjálfsögðu fá aðgang að þeim gögnum öllum og ég efast ekki um að það muni gagnast í starfi hennar.